Meirihlutastjórn í kortunum í Noregi

Annar varaformaður Kristilega þjóðarflokksins, Kjell Inge Ropstad, mun leiða viðræðurnar …
Annar varaformaður Kristilega þjóðarflokksins, Kjell Inge Ropstad, mun leiða viðræðurnar við Ernu Solberg forsætisráðherra. AFP

Leiðtogi Kristilega þjóðarflokksins í Noregi, Knut Arild Hareide, laut í lægra haldi fyrir varaformönnunum tveimur á landsfundi flokksins í gær, þar sem samþykkt var að flokkurinn skyldi ganga inn í ríkisstjórn Hægri-flokks, Framfaraflokks og Frjálslynda flokksins.

Mikil spenna var fyrir fundinn, sem haldinn var í gærkvöld, en Hareide vildi að Kristilegi þjóðarflokkurinn myndaði nýja samsteypustjórn með Verkamannaflokknum og Miðflokknum. NRK greindi frá niðurstöðu landsfundarins í gærkvöld.

Hareide sagði fyrir fundinn að hann myndi segja af sér sem formaður flokksins næði vilji hans ekki fram að ganga, enda væri ekki rétt fyrir flokkinn að hann leiddi hann áfram ef flokkurinn vildi fara aðra leið.

Stefna Kristilega þjóðarflokksins snýr að því að draga úr fjölda fóstureyðinga, sem Verkamannaflokkurinn og Miðflokkurinn hafa tekið undir, en Hareide telur ekki rétt að Kristilegi þjóðarflokkurinn styðji ríkisstjórn sem hafi slíkt ekki á stefnuskrá sinni.

Gengið verður til stjórnarmyndunarviðræða í næstu viku, en annar varaformaður Kristilega þjóðarflokksins, Kjell Inge Ropstad, mun leiða viðræðurnar við Ernu Solberg forsætisráðherra. Markmið Ropstad mun vera að fá þrjá ráðherra í nýrri meirihlutastjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert