SÞ segja ástandið líkjast helvíti á jörð

Sameinuðu þjóðirnar segja að ástandið sé skelfilegt í landinu og …
Sameinuðu þjóðirnar segja að ástandið sé skelfilegt í landinu og bitna átökin verst á börnum. AFP

Hörð átök hafa í dag geisað í hafnarborginni Hodeida í Jemen sem liggur við Rauðahaf. Tugir eru látnir og að sögn Sameinuðu þjóðanna búa börn við helvíti á jörðu í hinu stríðshrjáða landi. 

Þúsundir hafa fallið í stríðinu og þá ríkir hungursneyð í landinu af völdum borgarastyrjaldarinnar sem hefur staðið yfir í nokkur ár. Alþjóðasamfélag hefur sett aukinn þrýsting á að stríðandi fylkingar slíðri sverðin og stöðvi átökin. 

Fram kemur í frétt AFP að 53 uppreisnarmenn úr röðum húta hafi fallið í átökunum og tugir hafi særst. Undanfarinn sólarhring hafa loftárásir verið gerðar á Hodeida, sem þjónar mikilvægu hlutverki varðandi að koma hjálpargögnum inn í landið. 

Talsmenn hersins í Jemen segja að herþotur Sádi-Araba og bandamanna þeirra hafi gert fjölmargar loftárásir snemma í morgun til stuðnings hersveita sem styðja stjórnvöld í landinu. Svo virðist sem að átökin séu að færast að aðalháskólasvæði borginnar. 

AFP

Fjölmiðlaveitur húta hafa einnig greint frá loftárásunum en ekki er gefið upp hversu margir hafa fallið. 

Þrettán hermenn sem eru hliðhollir stjórnvöldum féllu að sögn heilbrigðisstarfsmanna í Aden og Mokha.

Fram kemur í frétt AFP að um 75% alls innflutnings sem kemur til Jemen fari í gegnum Hodeida og þaðan eru vörurnar fluttar landleiðina norður. 

Liðsmenn húta, sem njóta stuðnings Írana, stjórna hafnarsvæðinu. Sádar og bandamenn þeirra hafa hins vegar haldið svæðinu herkví.

Milljónir landsmanna standa frammi fyrir hungursneyð.
Milljónir landsmanna standa frammi fyrir hungursneyð. AFP

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) segir að frekari árásir og átök í Hodeida geti ógnað lífi og velferð Jemena um land allt, því fólkið treystir á þau hjálpargögn sem berst til hafnarborgarinnar. Jemen sé helvíti á jörðu fyrir öll börn í landinu.

SÞ hafa sagt að hvergi í heiminum ríki meira neyðarástand í heiminum en í Jemen, sem er fátækasta arabaríkið. Talið er að um 14 millljónir manna standi frammi fyrir hungursneyð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert