Pompeo: Átta ríki undanþegin viðskiptabanni

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir átta ríki vera tímabundið undanþegin …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir átta ríki vera tímabundið undanþegin viðskiptabanninu sem Bandaríkin hafa einhliða sett á Íran. AFP

Kína, Indland og Japan verða undanþegin einhliða viðskiptabanni Bandaríkjanna gegn olíuviðskiptum við Íran. Frá þessu greindi Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í dag og kvað bandarísk yfirvöld ætla að beita írönsk stjórnvöld stöðugum þrýstingi.

Banda­rísk stjórn­völd sögðu sig frá alþjóðlegu kjarn­orku­sam­komu­lag­i sem gert var við Íran fyrr á ár­inu og sagði  Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti  ástæðuna þá að sam­komu­lagið væri „meingallað“.

Sam­komu­lagið fól í sér að ír­önsk yf­ir­völd drógu veru­lega úr til­raun­um sín­um til að verða kjarn­orku­veldi í skipt­um fyr­ir aukna þró­un­araðstoð.

í ág­úst til­kynnti Trump að hann ætlaði að fylgja refsiaðgerðum gegn Íran eft­ir af fullri hörku og tóku þær gildi í dag.

Pompeo segir átta ríki hins vegar vera tímabundið undanþegin viðskiptabanninu vegna sérstakra kringumstæðna. Ríkin sem um ræðir eru Kína, Indland, Ítalía, Grikkland, Japan, Suður-Kórea, Taívan og Tyrkland. Kvað hann ríkin átta þegar hafa dregið úr kaupum á íranskri hráolíu og tvö þeirra hefðu raunar þegar hætt öllum viðskiptum með hana. „Við munum halda viðræðunum áfram þar til öll ríkin eru komin á núllið,“ sagði Pompeo á fundi með fréttamönnum.

„Okkar markmið er að svelta írönsk stjórnvöld um þá sjóði sem þau nota til að styðja ofbeldisaðgerðir í Miðausturlöndum og víðar um heim. Endanlegt markmið okkar er að fá þau til að láta af uppreisnarstarfi sínu,“ bætti hann við.

AFP segir athygli hafa vakið að Írak hafi ekki verið eitt þeirra ríkja sem undanþágan tók til, en að sögn sérfræðinga þá hefðu írönsk yfirvöld með því geta komist hjá banninu með því að blanda hráolíu sinni olíuframleiðslu nágrannaríkisins.

Pompeo hvatti írönsk stjórnvöld til að taka 180 gráðu snúning frá núverandi stefnu, sem á rætur sínar í íslömsku byltingunni 1979 og sem felur m.a. í sér stuðning við líbönsku Hezbolla samtökin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert