Feðgar pyntaðir til dauða

Patrick og Mazen Dabbagh.
Patrick og Mazen Dabbagh.

Frönsk yfirvöld hafa gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur þriggja háttsettra manna í leyniþjónustu Sýrlands í tengslum við dauða tveggja einstaklinga sem eru með franskt og sýrlenskt ríkisfang.

Handtökuskipanirnar ná til yfirmanns þjóðaröryggisráðs Sýrlands, Ali Mamluk, og tveggja háttsettra manna úr stjórnkerfi Sýrlands. Þeir eru grunaðir um aðild að pyntingum, glæpum gegn mannkyninu og stríðsglæpi.

Þrátt fyrir að þær hafi verið gefnar út 8. október þá voru þær ekki birtar opinberlega fyrr en í dag samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðamannréttindasambandinu (FIDH).

Mennirnir eru Jamil Hassan, sem stýrir leyniþjónustu flughersins og Abdel Salam Mahmoud, sem stýrir leyniþjónustunni á Mezzeh herflugvellinum í Damaskus. 

Þeirra er leitað í tengslum við hvarf feðga, Mazen og Patrick Dabbagh, sem voru handteknir í nóvember 2013 og settir í varðhald á  Mezzeh herflugvellinum, samkvæmt FIDH.

Sýrlensku mannúðarsamtökin greindu frá því í ágúst að Mazen Dabbagh, menntamálaráðgjafi, og sonur hans, Abdul Qader Patrick, sem báðir voru franskir ríkisborgarar búsettir í Damaskus, hafi verið handteknir á heimili sínu í borginni 3. nóvember 2013. Samtökin hafi síðan fengið upplýsingar um það 15. ágúst 2018 að þeir hafi látist eftir hafa verið pyntaðir í varðhaldi.  Abdul Qader lést 21. desember 2014 en faðir hans lést 25. nóvember 2017.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert