Greindist bilun í fjórum síðustu ferðum

Hluti af braki farþegaþotunnar um borð í björgunarskipi úti fyrir …
Hluti af braki farþegaþotunnar um borð í björgunarskipi úti fyrir strönd Jövu. AFP

Bilun greindist í hraða- og hæðarmæli í fjórum síðustu ferðum farþegaþotu indónesíska flugfélagsins Lion Air, sem hrapaði úti fyrir strönd Jövu í síðustu viku. 189 manns sem voru um borð í vélinni fórust allir.

BBC segir bilunina, á mælinum sem segir flugmönnum til um hraða vélarinnar, hafa uppgötvast eftir að flugriti vélarinnar, hinn svo nefndi svarti kassi, fannst. Orsök flugslyssins eru hins vegar enn ókunn.

Mikillar reiði gætti í dag hjá ættingjum þeirra sem létust á fundi sem indónesísk yfirvöld boðuðu til um málið. Krafðist fólkið þess að fá að vita hvers vegna vélinni hefði verið leyft að fljúga og að björgunarstarfi yrði haldið áfram af fullum krafti.

„Við erum fórnarlömbin hér. Ímyndið ykkur ef að þið væruð í okkar stöðu,“ sagði Najib Fuquoni, ættingi eins fórnarlambsins.

Foreldrar og ástvinir Hizkia Jorry Saroinsong, eins þeirra sem létust …
Foreldrar og ástvinir Hizkia Jorry Saroinsong, eins þeirra sem létust í flugslysinu, eru hér við útför hans. AFP

Þá köfðust ættingjar þess að á einum tímapunkti að Rusdi Kirana, stofnandi Lion Air sem sat fundinn, risi úr sæti. Rusdi stóð upp á fundinum, laut höfði og spennti greipar, en tjáði sig ekki.

BBC hefur áður greint frá að leiðarbók vélarinnar hafi sýnt fram á að hraðamælir í vélinni, sem var af gerðinni Boeing 737 Max, væri óáreiðanlegur.

Flugslysanefnd Indónesíu segir nú vandamál hafa komið upp í tveimur fyrri flugferðum vélarinnar. Ekki er hins vegar gefið upp hvort um viðhalds- eða vélarvandræði haf verið að ræða, né heldur hvort að fyrrnefndur mælir hafi átt þátt í því að vélin hrapaði.

„Eins og er þá erum við að leita uppruna vandans,“ hefur AP-fréttastofan eftir Nurcahyo Utomo einum rannsakendanna. „Við vitum ekki enn hvort að vandinn stafar af nál, mælitæki eða nema, eða hvort að vandinn sé tölvutengdur,“ bætti hann við.

Stjórnvöld í Indónesíu hafa þegar fyrirskipað rannsókn á öllum Boeing 737 Max farþegaþotum í landinu, en samgönguráðuneyti greindi frá því fyrir helgi að „minniháttar“ galli hefði fundist í tveimur öðrum flugvélum af þessari tegund, þar á meðal í mæli í flugstjórnarklefanum, sem rannsakendur telja að sé svipaður þeim sem fannst í vélinni sem hrapaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert