Komnir fótgangandi til Mexíkóborgar

Um 450 hælisleitendur dvelja nú á Jesus Martinez Palillo-íþróttavellinum í …
Um 450 hælisleitendur dvelja nú á Jesus Martinez Palillo-íþróttavellinum í Mexíkóborg. Flestir eru enn staðráðnir í að ná til Bandaríkjanna. AFP

Fyrstu hælisleitendurnir úr hópi þúsunda hælisleitenda sem eru á leið í gegnum Mexíkó til Bandaríkjanna eru nú komnir til höfuðborgarinnar Mexíkóborgar.

BBC segir um 450 manns vera komin til borgarinnar, flestir séu karlar og drengir og hafi þeir fengið tímabundið athvarf á íþróttavelli í borginni.  

Um 5.000 manns eru nú í hópnum, sem lagði af stað frá Hondúras til Bandaríkjanna fyrir nokkrum vikum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað sagt að bandaríski herinn verði notaður til að stöðva för hælisleitendanna fari þeir yfir landamærin til Bandaríkjanna. Gagnrýnendur forsetans hafa sakað hann um að nota för hópsins til að auka stuðning við Repúblikanaflokkinn fyrir þingkosningarnar sem fram fara á morgun.

Hælisleitendurnir, sem koma frá Hondúras, Gvatemala og El Salvador, segjast vera að flýja ofsóknir, fátækt og ofbeldi í heimalöndum sínum.

Margir þeirra sem dvelja nú á Jesus Martinez Palillo-íþróttavellinum komu þangað fótgangandi frá Veracruz-fylki, eða höfðu húkkað sér far.

„Ég á ekkert eftir af því sem ég tók með mér frá Hondúras,“ sagði Kenia Alvarado í samtali við dagblaðið El Universal. „Í gær gekk ég meira að segja berfætt.“

„Við erum staðráðin í að komast til Bandaríkjanna, til að upplifa bandaríska drauminn,“ sagði Mauricio Mancilla, sem var kominn frá Hondúras með sex ára son sinn. „Vegna trúar okkar á Guð mun okkur takast þetta, hverjar sem kringumstæðurnar eru.“

Yfirvöld í Mexíkóborg segjast hafa komið upp athvörfum, læknaþjónustu og lögfræðiaðstoð, auk matvælaaðstoðar fyrir þær þúsundir sem búist er við að komi til borgarinnar á næstu vikum.

Dagblaðið La Jornada segir vatnstönkum sem geymt geta 10.000 lítra hafa verið komið fyrir á íþróttavellinum.

„Þarna eru óléttar konur, fjöldi barna og varnarlausir einstaklingar og við verðum að tryggja rými og þá þjónustu sem þau þurfa á að halda,“ segir José Ramón Amieva Gálvez borgarstjóri.

Íbúar Mexíkóborgar hafa þá gefið fatnað og skó fyrir hælisleitendurna.

Hælisleitendur á íþróttaleikvanginum. Yfirvöld í Mexíkóborg segjast hafa komið upp …
Hælisleitendur á íþróttaleikvanginum. Yfirvöld í Mexíkóborg segjast hafa komið upp athvörfum, læknaþjónustu og lögfræðiaðstoð, auk matvælaaðstoðar fyrir þær þúsundir sem búist er við að komi til borgarinnar á næstu vikum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert