Stal 2 milljörðum frá félagsþjónustunni

Nielsen var handtekin í hótelíbúð í Johannesburg í Suður-Afríku og …
Nielsen var handtekin í hótelíbúð í Johannesburg í Suður-Afríku og voru fulltrúar frá dönsku efnahagslögreglunni (Søik) á staðnum. Vefur lögreglunnar

„Flóttanum er lokið,“ sagði í færslu dönsku lögreglunnar á Twitter í dag eftir að Anna Britta Troelsgaard Nielsen, fyrrverandi starfsmaður Socialstyrelsen, dönsku félagsþjónustunnar, var handtekin í Suður-Afríku í dag. Nielsen, eða Britta eins og danskir fjölmiðlar kalla hana, er grunuð um að hafa nýtt starf sitt hjá félagsþjónustunni til að stela um 111 milljónum danskra króna (um 2 milljörðum ísenskra króna) á árabilinu 2002-2018.

Þá er hún einnig grunuð um brot sem eiga að hafa átt sér stað 1997 og eru nú einnig til rannsóknar.

Danska ríkisútvarpið DR segir Nielsen hafa verið handtekna í hótelíbúð í Johannesburg og voru fulltrúar frá dönsku efnahagslögreglunni (Søik) á staðnum.

Thomas Anderskov Riis, yfirmaður Søik, segir handtöku Nielsen vera tímamót í rannsókninni. „Þetta er afrakstur samvinnu Søik og fjölda alþjóðlegra löggæslustofnanna. Nú getum við vonast til að geta uppýst málið og fengið svör við því hvar hinar horfnu milljónir eru,“ sagði Riis.

DR segir Nielsen hafa verið með töluvert af lausafé á sér er hún var handtekin.

Naut mikils trausts í starfi

Framsalsbeiðni verður lögð fram og segir Riis dönsk yfirvöld bjartsýn á að fá hana framselda. Ákvörðunin liggi þó hjá suður-afrískum yfirvöldum.

Það var í ágúst á þessu ári sem upp komst um sérkennilegar styrkjagreiðslur úr sjóðum félagsþjónustunnar  og var þá gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur Nielsen, sem vann hjá félagsþjónustunni í yfir 40 ár og naut mikils trausts í starfi sínu.

Hún liggur nú undir grun um að hafa notað stöðu sína til að draga sér 111 milljónir danskra króna úr þeim sjóðum sem hún hafði aðgang að. Segir DR Nielsen grunaða um að hafa staðið fyrir sérkennilegum greiðslum í 274 skipti frá árinu 2002.

Danskir fjölmiðlar hafa áður greint frá því að hægt hefði verið að upplýsa málið fyrr, þar sem Søik hafi fyrir sex árum síðan borist ábending um grunsamlegar færslur af einum reikningum félagsmálaráðuneytisins yfir á reikninga í eigu Nielsen.

Áður höfðu tveir einstaklingar tengdir Nielsen verið handteknir vegna gruns um að meðhöndla þýfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert