Vona að faðir þeirra hafi ekki kvalist

Jamal Khashoggi var myrtur 3. október.
Jamal Khashoggi var myrtur 3. október. AFP

Synir sádi-arabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi, sem var myrtur á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrklandi í byrjun október, vilja fá líkamsleifar föður síns til að hægt sé að halda útför.

Salah og Abdullah Khashoggi sögðu í viðtali við CNN að faðir þeirra hefði verið hugrakkur og góður maður. Þeir sögðu að vikurnar síðan hann hvarf og lést hefðu verið hræðilegar.

„Ég vona að hvað sem gerðist hafi ekki verið of sársaukafullt eða að það hafi tekið fljótt af,“ sagði Abdullah.

Yfirvöld í Tyrklandi, sem segja að ráðamenn í Sádi-Arabíu hafi fyrirskipað að Khashoggi yrði myrtur, leita enn að líkamsleifum hans. Í síðustu viku hélt tyrkneskur saksóknari því fram að Khashoggi hefði verið kyrktur og lík hans síðan sundurlimað.

Recep Tayyip Erdogan.
Recep Tayyip Erdogan. AFP

Yasin Aktay, einn helsti ráðgjafi Recep Tayyip Er­dog­an Tyrk­lands­for­seta, seg­ist telja að lík sádi-ar­ab­íska blaðamanns­ins hafi verið leyst upp í sýrubaði eft­ir að búið var að sund­urlima það.

Bræðurnir segja að það sé erfitt fyrir fjölskylduna að syrgja vegna þess að þau vita ekkert um líkið. Þeir vilja að útför hans fari fram í Medina í Sádi-Arabíu, þar sem aðrir í fjölskyldunni eru jarðsettir.

„Ég hef rætt það við yfirvöld í Sádi-Arabíu og vonast til að það geti gerst fljótlega,“ sagði Salah. 

Abdullah og Salah segja að allir hafi kunnað vel við föður þeirra og að hann hafi verið hamingjusöm manneskja og frábær faðir.

„Margir hafa komið fram síðustu vikur og reyna að eigna sér arfleið hans. Því miður nota sumir það sér í pólitískum tilgangi sem við erum ekki sammála,“ sagði Salah.

Synir Jamal Khashoggi segjast treysta yfirvöldum í Sádi-Arabíu til að …
Synir Jamal Khashoggi segjast treysta yfirvöldum í Sádi-Arabíu til að rannsaka morðið. AFP

Synirnir segja að fólk eigi að minnast föður þeirra sem manns sem var hófsamur og elskaði landið sitt. Þeir bíði niðurstöðu rannsóknar og þess að staðreyndir málsins komi í ljós.

„Konungurinn hefur lýst því yfir að allir sem eru viðriðnir málið verði látnir svara til saka og ég hef trú á því. Annars hefðu Sádi-Arabar ekki rannsakað málið,“ sagði Salah.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert