Dauðadæmdir frömdu sjálfsvíg

San Quinten-fangelsið í Kaliforníu.
San Quinten-fangelsið í Kaliforníu. Wikipedia

Talið er að tveir fangar á dauðadeild í Kaliforníu hafi framið sjálfsvíg um helgina. Annar þeirra var dæmdur til dauða fyrir fjöldamorð.

Starfsfólk við San Quinten-ríkisfangelsið fann Andrew Urdiales, sem var 54 ára gamall, meðvitundarlausan í klefa sínum á föstudagskvöldið og ekki tókst að bjarga lífi hans, að því er segir í tilkynningu frá fangelsismálayfirvöldum. Á sunnudag fannst síðan annar fangi, Virendra Govin, 51 árs, látinn í klefa sínum.

Talið er að þeir hafi báðir framið sjálfsvíg að sögn fangelsismálayfirvalda og er ekki talið að sjálfsvígin tengist.

Urdiales var dæmdur til dauða 5. október fyrir fjöldamörg morð en fyrsta morðið framdi hann árið 1986. Morðin framdi hann þegar hann var í sérsveit hersins og bjó í búðum hennar í Kaliforníu. Hann var vistaður á dauðadeild 12. október.

Hann hafði áður verið dæmdur til dauða fyrir nokkur morð sem hann framdi á tíunda áratug síðustu aldar í Illinois en dómurinn var mildaður árið 2011. 

Govin var dæmdur til dauða árið 2004 fyrir að drepa fjögurra manna fjölskyldu í Los Angeles og kveikja síðan í heimili þeirra. Hann hafði verið vistaður á dauðadeild frá árinu 2005. 

Frá árinu 1978, þegar Kalifornía heimilaði dauðarefsingar að nýju, hafa 79 fangar á dauðadeild látist af eðlilegum orsökum, 25 hafa framið sjálfsvíg, 13 hafa verið teknir af lífi í Kaliforníu, einn í Missouri og annar í Virginia, segir í tilkynningu frá fangelsismálayfirvöldum í ríkinu. Alls eru 740 fangar á dauðadeildum í Kaliforníu.

Andrew Urdiales.
Andrew Urdiales. Ljósmynd saksóknaraembættið í Orange-sýslu
Virendra Govin.
Virendra Govin. Lögreglan í Sacramento
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert