Kosningaréttur fanga á kjörseðlinum

Ron Desantis, frambjóðandi repúblikana til ríkisstjóra Flórída, á kosningaviðburði með …
Ron Desantis, frambjóðandi repúblikana til ríkisstjóra Flórída, á kosningaviðburði með Donald Trump Bandaríkjaforseta. Desantis er á móti því að fangar endurheimti kosningarétt sinn eftir afplánun AFP

Kjósendur í 37 ríkjum Bandaríkjanna munu ákvarða um 155 málefni með beinu lýðræði í dag. Samkvæmt hinni ópólitísku kosningaupplýsingasíðu Ballotpedia hafa þrýstihópar eytt um 1,12 milljörðum bandaríkjadala til að hafa áhrif á þau málefni sem íbúar hvers ríkis fá að kjósa um. Málefni enda með mismunandi hætti á kjörseðlinum en óbreyttir borgarar sem og vel fjármagnaðir þrýstihópar geta komið ýmsum málefnum á kjörseðilinn hverju sinni með undirskriftasöfnun.

Í Nevada og Arizona er meðal annars kosið um hvort það eigi að skylda orkufyrirtæki til að framleiða meira af umhverfisvænni orku, sólar- og vindorku. Málefni sem var þrýst á kjörseðilinn af þrýstihópnum NextGen Climate Action, sem er í eigu milljarðamæringsins og demókratans Toms Steyers.

Íbúar í Norður-Dakóta og Michigan munu kjósa um hvort lögleiða eigi kannabis og í Utah og Missouri verður kosið um hvort lögleiða eigi kannabisnotkun í lækningaskyni.

Kjörskrá sveifluríkis undir

Íbúar í Flórída kjósa hins vegar um málefni sem gæti haft mikil áhrif á næstu forsetakosningar. Kjósendur í þessu stærsta sveifluríki Bandaríkjanna kjósa um hvort um 1,5 milljónir fyrrverandi fanga eigi að fá kosningarétt aftur. Þeir sem hafa verið dæmdir fyrir alvarleg afbrot í Flórída, sem og þremur öðrum ríkjum Bandaríkjanna, glata kosningarétti sínum ævilangt. Hingað til hafa fangar þurft að sækja um að fá kosningaréttinn aftur á skrifstofu ríkisstjórans í Flórída. Þar er hvert mál ákveðið fyrir sig og alls ekki öruggt að viðkomandi fái kosningaréttinn aftur.

Ríkisstjóraframbjóðandi Demókrataflokksins, Andrew Gillum, styður málefnið og vill að fangar endurheimti kosningarétt eftir afplánun en Ron Desantis, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, er mótfallinn því. Þarf málefnið að fá yfir 60% stuðning í kosningunum til að verða að lögum. Samkvæmt könnun Suffolk-háskólans sem gerð var 25.-28. október styðja 70% íbúa Flórída það að fyrrverandi fangar endurheimti kosningarétt sinn.

Þrettán málefni í Flórída

Kjörseðillinn í Flórída í ár er hins vegar með óhemjumörgum málefnum sem íbúar fá að kjósa um; alls eru þrettán málefni á kjörseðlinum. Meðal þess sem íbúar fá að ákveða er hvort eigi að leyfa spilavíti í Flórída, banna notkun rafrettna á vinnustöðum innandyra, banna ákveðna tegund af veðmálum um mjóhundakapphlaup og hækka eftirlaunaaldur dómara í 75 ár svo dæmi séu tekin.

Í fjórum ríkjum, Colorado, Michigan, Missouri og Utah, verður kosið um hvort breyta eigi reglum um hvernig kjördæmalínur eru teiknaðar, m.a. með því að setja upp nefnd sem þarf að samþykkja kjördæmin sem stjórnmálamenn ákveða hverju sinni. Niðurstaðan úr þeirri kosningu gæti einnig haft áhrif á kosningar komandi ára.

Hér þar að hafa í huga að stundum eru þessi málefni sem enda á kjörseðlinum sérstaklega sett þar til að reyna að koma kjósendum á kjörstað. Í Norður-Karólínu er kosið um hvort stjórnarskrá ríkisins eigi að innihalda réttinn til skot- og stangveiða til að reyna að fá íhaldssama kjósendur á kjörstað. Þá eru kosningar um t.d. lögleiðingu kannabiss líklegri til að draga unga og framfarasinnaða kjósendur á kjörstað. Þannig eru oft framfaramálefni á kjörseðlinum í ríkjum þar sem repúblikanar eru með meirihluta og íhaldssöm málefni á kjörseðlinum í frjálslyndari ríkjum. Í Kaliforníu er t.d. kosið um hvort eigi að lækka skatta á eldsneyti, málefni sem repúblikanar í Kalifornínu hafa ekki farið leynt með að sé þar til að fá hægrisinnaða kjósendur á kjörstað.

Kosið um aukinn stuðning til heilbrigðistrygginga í fjórum ríkjum

Í Idaho, Utah, Nebraska og Montana verður kosið um hvort ríkin eigi að setja aukið fé í Medicaid-kerfið, heilbrigðistryggingar fyrir lágstéttarfólk í Bandaríkjunum. Stjórnmálamenn í þessum fjórum ríkjum kusu gegn því að auka fé í Medicaid fyrir fjórum árum og því verður áhugavert að sjá hvort íbúar séu sammála eða ósammála kjörnum fulltrúum.

Ríkin fengu þann valmöguleika að auka stuðning við Medicaid með setningu heilbrigðistryggingalaga sem Barack Obama kom á, betur þekkt sem Obamacare. Löggjöf sem þingmenn repúblikana hafa reynt ótal sinnum að fella í báðum þingdeildum. Repúblikanar hafa sterkt fylgi í öllum þessum fjórum ríkjum sem kjósa um Medicaid. Medicaid er þó vinsælt meðal kjósenda og hefur fráfarandi ríkisstjóri Idaho, repúblikaninn Butch Otter, meðal annars hvatt kjósendur til að kjósa með því að fá aukafjárstuðning í Medicaid.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert