Macron vill Evrópusambandsher

Emmanuel Macron Frakklandsforseti.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti. AFP

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, kallaði eftir því í viðtali við útvarpsstöðina Europe 1 í dag að Evrópusambandið kæmi sér upp „raunverulegum evrópskum her“. Tilefni viðtalsins var að öld er liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Haft er eftir Macron í frétt AFP að Evrópusambandið þurfti að vera betur í stakk búið til þess að geta varið sig gegn Rússum, Kínverjum og jafnvel Bandaríkjunum. Að minnsta kosti væri ljóst að sambandið þyrfti að verða minna háð Bandaríkjunum.

Macron og fleiri leiðtogar innan Evrópusambandsins hafa á undanförnum árum og áratugum ítrekað kallað eftir því að sambandið kæmi sér upp eigin her og ýmis skref hafa þegar verið tekin í þá átt. Hins vegar hefur skrefið ekki verið tekið til fulls.

„Við verðum að verja okkur sjálf með tilliti til Kína, Rússlands og jafnvel Bandaríkjanna,“ sagði Macron. Varaði hann við áformum ríkisstjórnar Bandaríkjanna um að segja upp kjarnorkuvopnasamningi sem gerður var við Rússa árið 1987.

Forsetinn sagði í viðtalinu, sem tekið var upp í Verdun í Frakklandi þar sem ein blóðugasta orrusta fyrri heimsstyrjaldarinnar var háð, að Evrópa yrði helsta fórnarlamb afleiðinga þess ef kjarnorkuvopnasamningnum við Rússland yrði sagt upp. 

„Við munum ekki geta varið Evrópubúa nema við ákveðum að koma okkur upp raunverulegum evrópskum her.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert