Ríkisstjóraslagir í sveifluríkjum

Stacey Abrams, ríkisstjóraframbjóðandi Demókrataflokksins í Georgíu. Hún yrði fyrsta blökkukonan …
Stacey Abrams, ríkisstjóraframbjóðandi Demókrataflokksins í Georgíu. Hún yrði fyrsta blökkukonan til að gegna embætti ríkisstjóra í sögu Bandaríkjanna verði hún kosin. AFP

Alls kusu 36 ríki Bandaríkjanna og þrjú sjálfstjórnarsvæði um ríkisstjóra í dag. Ríkisstjórakosningar í ár eru afar mikilvægar því ný íbúatalning Bandaríkjanna kemur út árið 2020 og verða kjördæmi m.a. ákveðin eftir þeim. Ríkisstjórar hvers ríkis hafa mikið vald yfir því hvernig kjördæmalínur eru teiknaðar, sem skiptir miklu máli fyrir kosningar í Bandaríkjunum næstu 10 árin.

Kosið er um ríkisstjóra í 26 ríkjum þar sem repúblikani er ríkisstjóri og í níu ríkjum þar sem demókrati er sitjandi ríkisstjóri. Þá er einnig kosið um ríkisstjóra í Alaska en ríkisstjóri Alaska, Bill Walker, stendur utan flokka. Mörg ríki sem gætu skipt miklu máli fyrir forsetakosningar 2020 eru að kjósa ríkisstjóra í ár en þar má nefna Minnesota þar sem demókratinn Tim Walz leiðir á móti repúblikananum Jeff Johnsson en Johnsson vann fyrrverandi ríkisstjóra Minnesota, Tim Pawlenty, í prófkjöri sínu.

Í Ohio eru demókratinn Richard Cordray og repúblikaninn Mike Dewine í hörðum ríkisstjóraslag. Dewine er fyrrverandi þingmaður í öldungadeildinni en Cordray er fyrrverandi forstjóri neytendastofu Bandaríkjanna. Þeir hafa báðir gegnt embætti dómsmálaráðherra Ohio en þetta er í annað skiptið sem Dewine og Cordray mætast í kosningum. Árið 2010 fóru Dewine og Cordray báðir í framboð til dómsmálaráðherra sem endaði með að Dewine vann með 47,5% á móti 46,3%.

Í Wisconsin eru demókratar að reyna að velta sitjandi ríkisstjóra, Scott Walker, í þriðja sinn. Hann var kjörinn árið 2010 og endurkjörinn árið 2014. Kjósendur í Wisconsin náðu að krefjast sérstakra kosninga með undirskriftasöfnun árið 2012 sem Walker vann einnig. Tony Evers er frambjóðandi demókrata til ríkisstjóra í ár og samkvæmt meðaltali skoðanakannana frá Real Clear Politics leiðir hann með nokkrum prósentustigum.

Demókratinn og fyrrverandi borgarstjóri Tallahassee, Andrew Gillum, er í framboði til ríkisstjóra Flórída en spekingar vestanhafs telja hann líklegan til að verða framtíðarstjörnu innan Demókrataflokksins. Fulltrúadeildarþingmaðurinn og repúblikaninn Ron DeSantis sækist einnig eftir því að verða ríkisstjóri Flórída. Leiðir Gillum með nokkrum prósentustigum og verður því áhugavert að fylgjast með hvað gerist í Flórída á þriðjudaginn.

Andrew Gillum, frambjóðandi Demókrataflokksins í Flórída.
Andrew Gillum, frambjóðandi Demókrataflokksins í Flórída. AFP
Ron DeSantis, frambjóðandi Repúblikanaflokksins í Flórída.
Ron DeSantis, frambjóðandi Repúblikanaflokksins í Flórída. AFP

Rétturinn til að kjósa í suðrinu

Enginn ríkisstjóraslagur hefur hins vegar fengið jafn mikla athygli og í Georgíu. Þar sækist demókratinn Stacey Abrams eftir því að verða fyrsta blökkukonan til að vera kosin ríkisstjóri í sögu Bandaríkjanna. Repúblikaninn Brian Kemp, innanríkisráðherra Georgíu, sækist einnig eftir embættinu en hann og Abrams hafa eldað grátt silfur saman í mörg ár.

Abrams er leiðtogi demókrata á ríkisþingi Georgíu, og Kemp er meðal annars æðsti yfirmaður kosningamála í ríkinu. Abrams hefur um árabil leitt samtökin New Georgia Project, sem vinna að því að hjálpa minnihlutahópum að skrá sig á kjörskrá. Markmið samtakanna, sem stofnuð voru 2013, er að skrá 800.000 blökkumenn á kjörskrá á tíu ára tímabili. Hóf ráðuneyti Kemps rannsókn á samtökunum árið 2014 fyrir fjársvik. Leiddi rannsóknin ekkert saknæmt í ljós og sakaði Abrams Kemp um nornaveiðar og sagði hann „höfund kosningakúgunar“ í Georgíu. Þau voru bæði ólíkleg til að vinna prófkjör sín en eins og í sannri Hollywood-bíómynd unnu þau bæði og mætast því þessir miklu andstæðingar í ríkisstjórakosningum í ár.

Kosningamyndband Kemp hefur vakið gríðarlega athygli á samfélagsmiðlum.

Kemp hefur komið á mjög strangri kosningalöggjöf í Georgíu, með fyrirkomulagi sem er þekkt undir heitinu „Exact Match“. Í Bandaríkjunum þarf að skrá sig til að fá að kjósa og virkar „Exact Match“ löggjöfin þannig að þegar kjósandi sækir um að fara á kjörskrá er umsókn hans borin saman við allar aðrar upplýsingar sem til eru um hann í stjórnsýslunni. Ef einhverjar upplýsingar stemma ekki, allt niður í stafsetningarvillu eða kommu á vitlausum stað, er viðkomandi ekki settur á kjörskrá. Hefur Kemp m.a. kennt New Georgia Project um lélega pappírsvinnu í tengslum við skráningar þeirra á kjósendum.

Í síðasta mánuði komst fréttaveitan AP yfir skjöl úr ráðuneyti Kemps þar sem kom fram að 53 þúsund einstaklingar voru í bið um að fá að komast á kjörskrá vegna nýju laganna. Rúmlega 70% þeirra sem voru í bið voru blökkumenn.

Komst dómstóll í Georgíu að þeirri niðurstöðu á föstudaginn að ríkið yrði að losa um þennan hóp sem er í bið. Skipaði dómstóllinn einnig ráðuneyti Kemps að senda frá sér fréttatilkynningu um það hvernig kjósendur í þessum hópi gætu leyst úr sínum málum.

Yfir tvær milljónir kjósenda teknar af kjörskrá síðan 2012

Að sögn Brennan Center for Justice við New York-háskólann hafa 1,5 milljónir manns verið teknar af kjörskrá í ríkinu á árunum 2012 til 2016. Samkvæmt Atlanta Journal- Constitution fóru 665 þúsund einstaklingar til viðbótar af kjörskrá í fyrra. Georgía er nefnilega eitt af þeim fáu ríkjum Bandaríkjanna sem skráir kjósendur „óvirka“ ef þeir hafa ekki kosið í þrjú ár og fara þeir í kjölfarið af kjörskrá og þurfa sækja um á ný. Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur sagt þetta ferli löglegt. Íbúar ríkisins sem hafa ekki kosið í þrjú ár fá bréf heim þar sem þeir þurfa að staðfesta heimilisfang sitt innan 30 daga og ef þeir gera það ekki fara þeir af kjörskrá. Kemp hefur sagt þessa löggjöf vera til þess að koma í veg fyrir kosningasvindl. Abrams segir þessa kosningalöggjöf ekkert annað en tilraun til að fæla minnihlutahópa frá kjörstað. Georgía á ekki fagra sögu þegar kemur að kosningarétti blökkumanna og á sá réttur undir högg að sækja á ný.

Hefur þessi harði kosningaslagur dregið að sér mikla athygli og mætti sjónvarpsstjarnan Oprah Winfrey til Georgíu í síðustu viku til að ganga í hús fyrir Abrams. Obama mætti einnig á kosningaviðburð fyrir Abrams um helgina og þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti mætt á kosningaviðburði fyrir Kemp. Það verða því allra augu á Georgíu þegar talið verður upp úr kjörkössunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert