Andstæðingur Rússarannsóknar tekur við

Jeff Sessions í forgrunni og Matthew Whitaker fyrir aftan.
Jeff Sessions í forgrunni og Matthew Whitaker fyrir aftan. AFP

Sá sem tekur við starfi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna tímabundið heitir Matthew Whitaker. Hann hefur lýst því yfir að rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, á tengslum Donalds Trumps við Rússa í aðdraganda forsetakosninganna haustið 2016 hafi gengið allt of langt.

Rannsókn Muellers hefur staðið yfir í 17 mánuði en hann tók við af James Comey sem var rekinn. Trump hefur marg oft sagt rannsóknina á tengslum hans við Rússa í aðdraganda kosninganna nornaveiðar.

Í byrjun ágúst hvatti Trump Sessions til að binda endi á rannsókn Muellers. „Þetta er hræðileg staða og Jeff Sessi­ons dóms­málaráðherra ætti að stöðva þess­ar fölsku norna­veiðar núna strax, áður en þær halda áfram að ata land okk­ar frek­ari auri,“ sagði Trump á Twitter.

„Ég ætla að svara þessari spurningu seinna,“ sagði Trump þegar hann var spurður um framtíð Jeff Sessions, fráfarandi dómsmálaráðherra, í Hvíta húsinu í dag en Trump rak Sessions fyrr í dag.

Donald Trump í Hvíta húsinu í dag.
Donald Trump í Hvíta húsinu í dag. AFP

„Herra forseti. Ég segi hér með af mér, að þinni beiðni,“ skrifar Sessions í afsagnarbréfi sínu sem hann afhenti starfsmannastjóra Hvíta hússins í dag. Hann segist hafa gert sitt besta frá fyrsta degi og að starfið hafi gengið vel.

Hann segir að það hafi verið heiður að vera dómsmálaráðherra. „Þakka þér fyrir tækifærið, herra forseti,“ skrifar Sessions í lok bréfsins.

Whitaker sagðist í viðtali fyrir fjórum árum síðan vera andsnúinn samkynja hjónabandi. Hann sagði enn fremur að hann hefði ekki trú á því að ríkið ætti að gera eitthvað til að sporna við loftslagsbreytingum. „Ég trúi ekki á stórar ríkisaðgerðir þar sem vandamálið virðist ekki vera stórt eða af mannavöldum,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert