Jeff Sessions segir af sér embætti

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér embætti að beiðni Donalds Trump Bandaríkjaforseta.

Trump þakkaði Sessions fyrir störf hans í ráðuneytinu í færslu á Twitter fyrir skömmu. Í annarri færslu tilkynnti hann að Matthew G. Whittaker, starfsmannastjóri dómsmálaráðuneytisins, muni gegna embætti dómsmálaráðherra þar til eftirmaður Sessions verður tilnefndur. 

Andað hefur köldu á milli Trump og Sessions um tíma og sagði forsetinn til að mynda í sjónvarpsviðtali í september að hann vildi helst ekki hafa neinn dómsmálaráðherra í ríkisstjórn sinni.

Trump hef­ur gagn­rýnt Sessi­ons harka­lega vegna þeirr­ar ákvörðunar hans að segja sig frá rann­sókn al­rík­is­lög­regl­unn­ar á meint­um tengsl­um aðstoðarmanna Trumps við Rússa í kosn­inga­bar­átt­unni fyr­ir tveim­ur árum.

Þá hefur Trump einnig lýst yfir óánægju sinni með það hvernig Sessi­ons hafi tekið á mál­efn­um inn­flytj­enda.

„Ég er ekki með neinn dóms­málaráðherra. Það er afar sorg­legt,“ sagði Trump í viðtal­inu sem var tekið 18. september. Þegar hann var spurður hvort hann væri að íhuga að reka Sessi­ons úr embætti svaraði Trump: „Við sjá­um hvað ger­ist. Marg­ir hafa beðið mig um að gera það.“

Sessi­ons var dygg­ur stuðnings­maður Trumps þegar hann bauð sig fram til embætt­is for­seta Banda­ríkj­anna. Hann ákvað hins veg­ar að segja sig frá rann­sókn al­rík­is­lög­regl­unn­ar í fyrra vegna hags­muna­árekst­urs og setti málið í hend­ur Rod Ro­sen­stein, aðstoðardóms­málaráðherra Banda­ríkj­anna.

Ekki liggja fyrir frekari ástæður þess að Trump bað Sessions að segja af sér embætti á þessum tímapunkti. 

Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér embætti.
Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur sagt af sér embætti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert