12 látnir eftir skotárás á bar

Lögreglumenn og almenningur á vettvangi árásarinnar í Thousand Oaks.
Lögreglumenn og almenningur á vettvangi árásarinnar í Thousand Oaks. AFP

12 manns hið minnsta létust í skotárás á veitingastað í Kaliforníu. Árásin átti sér stað á veitingastaðnum Borderline Bar and Grill í borginni Thousand Oaks um hálftólfleytið í gærkvöldi að staðartíma.

BBC segir lögreglu hafa staðfest að árásarmaðurinn sé látinn og að minnsta kosti 12 séu látnir af þeim 200 sem voru á staðnum. Los Angeles Times segir tölu látinna nú vera komna upp í 13.

„Þegar lögreglumenn komu á staðinn heyrðu þeir skotum hleypt af. Árásin var enn í gangi,“ hefur BBC eftir Eric Buschow talsmanni lögreglu í Ventura-sýslu.

„Þegar þeir komu þangað inn sáu þeir að fjöldi látinna var á staðnum, sem og fjöldi særðra. Meðal fórnarlambanna er lögreglumaðurinn sem var fyrstur á vettvang, sem og árásarmaðurinn.“

Segir lögregla líklegt að fjöldi særðra eigi eftir að aukast.

Dagblaðið Los Ang­eles Times hef­ur eft­ir vitni á vett­vangi að ein­hver hafi komið hlaup­andi inn á bar­inn um hálftólfleytið og byrjað að skjóta úr ein­hverju sem virt­ist vera svört skamm­byssa.

„Hann skaut mikið, að minnsta kosti 30 sinn­um. Ég var enn að heyra byssu­skot eft­ir að all­ir fóru út,“ hef­ur blaðið eft­ir mann­in­um.

Hafa sum­ir banda­rísk­ir fjöl­miðlar sagt að árás­armaður­inn kunni að hafa notað reyk­sprengj­ur auk hefðbund­inna skot­vopna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert