Gagnrýndi alþjóðasáttmála og -stofnanir

Henrik Sass Larsen, þingflokksformaður danska Sósíaldemókrataflokksins.
Henrik Sass Larsen, þingflokksformaður danska Sósíaldemókrataflokksins.

Henrik Sass Larsen, þingflokksformaður danska Sósíaldemókrataflokksins og fyrrverandi ráðherra flokksins, hefur efasemdir um þátttöku Danmerkur í ýmsum alþjóðasáttmálum og -stofnunum og veltir því upp hvort tími sé kominn til að segja sig úr einhverjum þeirra.

Sass sagði í umræðuþættinum Sass og Pind á sjónvarpsstöðinni TV 2 í dag að það væru ýmsir „undarlegir hlutir“ sem ríki neyddust til að gera í nafni góðmennsku og að það hefði reynst skaðlegt fyrir miðjuflokka, bæði í dönskum stjórnmálum og víðar um heim.

„Ég held að ein af ástæðunum fyrir uppgangi öfgasinnaðra stjórnmálaflokka sé að við höfum búið þessar stofnanir til og að miðjuflokkar standi vörð um þær, alla leið,“ sagði Sass, sem telur nauðsynlegt að almenningur fái það á tilfinninguna að það sé hann sem ráði för, en ekki „allir aðrir“, til dæmis í innflytjendamálum.

„Við höfum flækst inn í alls konar alþjóðlega sáttmála og dómstóla. Það verður okkar verkefni að komast út úr þeim, svo við getum fengið völdin [yfir innflytjendamálum] aftur,“ sagði Sass.

Ummæli Sass vöktu nokkra furðu viðmælanda hans, Søren Pind, fyrrverandi dómsmálaráðherra hægriflokksins Venstre, sem virtist ekki átta sig á því hvað Sass væri að fara. Hann benti á kostina við samræmda mannréttindalöggjöf og það að ríki á borð við Ungverjaland gæti til dæmis ekki tekið upp dauðarefsingu vegna alþjóðlegra skuldbindinga sinna.

Pind spurði Sass hvað honum þætti um Mannréttindadómstól Evrópu og því svaraði sósíaldemókratinn á þá leið að dómstóllinn væri að hans mati eitt af því sem hefði hvað skaðlegust áhrif á mannréttindi, með túlkunum sínum á öllum mögulegum og ómögulegum málum sem fyrir hann væru lögð.

Ekki stefna sósíaldemókrata

Mette Frederiksen, formaður Sósíaldemókrataflokksins, var innt eftir viðbrögðum við orðum þingflokksformannsins og í samtali við dönsku Ritzau-fréttaveituna sagði hún að stefna flokksins væri síður en svo sú að draga sig úr alþjóðlegum sáttmálum, þó að það væri allt í lagi að ræða gildi þeirra.

Samkvæmt Ritzau lagði flokksformaðurinn áherslu á að ummæli Sass myndu „að sjálfsögðu“ ekki hafa afleiðingar fyrir hann, en þó má ef til vill geta sér til um að hún hafi gefið honum orð í eyra.

Síðar í dag dró Sass nefnilega úr fyrri orðum sínum í færslu á Facebook-síðu sinni og sagði að vel mætti rökræða Mannréttindasdómstólinn og alþjóðasáttmála á gagnrýnan hátt, án þess að fólk færi strax að ræða um að hann vildi draga Danmörku einhliða út úr þeim, því „það hefði hann ekki sagt né meint“.

Frétt TV2 um málið

mbl.is
Höfuðverkur, endalaus þreyta, svefnleysi
Er með til leigu OZONE lofthreinsitæki ( margir kalla þetta JÓNAR tæki ). Eyði...
Harðviður til húsbygginga
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN & DANISH f. foreigners - ÍSLENSKA f.útl - ENSKA - NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA: I, II, III, IV, V, VI: 2019:SPRING/VORÖNN: ...
Handlaug með blöndunartækjum og festingu.
Notuð handlaug til sölu með blöndunartækjum og festingu á vegg. kr. 3 þúsund kr...