Þúsundir flýja gróðurelda í Kaliforníu

Íbúar hjúkrunarheimils og sjúklingar Feather River-sjúkrahússins eru hér fluttir á …
Íbúar hjúkrunarheimils og sjúklingar Feather River-sjúkrahússins eru hér fluttir á brott áður en eldurinn fór þar yfir. AFP

Þúsundir íbúa í norðurhluta Kaliforníu flýja nú gróðurelda sem breiðast út með miklum hraða í átt að nokkrum bæjum í hlíðum Sierra-þjóðgarðsins. Eldarnir kviknuðu á fimmtudag í nágrenni Camp Creek og hafa hvassar vindhviður og þurrt skóglendi valdið því að þeir hafa breiðst hratt út.

BBC segir heilu hverfin, skóla og sjúkrahús á svæðinu hafa verið rýmd. Þá hafi nokkrir íbúar í bænum Paradise lokast þar inni af völdum eldanna.

Fréttir hafa borist af að fólk hafi látist af völdum eldanna, en þær eru enn sem komið er óstaðfestar.

Paradise Inn-hótelið í bænum Paradise er hér í ljósum logum.
Paradise Inn-hótelið í bænum Paradise er hér í ljósum logum. AFP

Gróðureldarnir höfðu síðdegis í gær farið yfir um 20.000 ekrur lands og búist er við að eldarnir breiðist hratt út næstu klukkustundirnar, þar sem vindhraði nálgast nú 80 km/klst.

Segja bandarískir fjölmiðlar dæmi um að íbúar hafi þurft að yfirgefa bíla sína og flýja fótgangandi.

Búið er að fyrirskipa brottflutning á íbúum Paradise, þar sem 26.000 manns búa, sem og í Maglia, Concow, Butte Creek Canyon og í Butte-dalnum, en svæðið er skammt norður af Sacramento. Þá vinna hjálparsveitir að því hörðum höndum að koma á brott þeim sem eldarnir hafa lokað inni.  

Þúsundir eru án rafmagns.

Eldurinn hafði farið yfir um 20.000 ekrur lands síðdegis í …
Eldurinn hafði farið yfir um 20.000 ekrur lands síðdegis í gær og er búist við að hann breiðist hratt út næstu klukkustundirnar. AFP

„Eldarnir voru svo heitir að maður fann fyrir þeim,“ sagði einn íbúa Paradise sem náði að flýja eldana. Aðrir lýstu því að hafa séð eldinn brenna upp heimili sín.

Gróðureldar loga nú á 14 stöðum í Kaliforníu. Þannig er slökkvilið í Ventura-sýslu í nágrenni Los Angeles til að mynda að reyna að ráða niðurlögum gróðurelda skammt frá þeim stað þar sem 12 manns fórust í skotárás í gær.

Myndir hafa verið birtar á samfélagsmiðlum af vegaköflum með háar eldtungur til beggja hliða og þykkt reykjarkóf.  Shari Bernacett sagði í samtali við AP-fréttaveituna að hún hefði „barið á dyr, hrópað og öskrað“ til að fá íbúa hjólhýsasvæðis til að yfirgefa staðinn áður en eldurinn gleypti hlíðina. „Öll hlíðin er í ljósum logum,“ sagði hún grátandi. „Guð hjálpi okkur!“

Bílar og hús brenna er eldurinn fer í gegnum bæinn …
Bílar og hús brenna er eldurinn fer í gegnum bæinn Paradise. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert