Handtekin vegna jarðarberjamálsins

Kona hefur verið handtekin í Ástralíu í tengslum við rannsókn á málum þar sem saumnálar hafa fundist í jarðarberjum að því er fram kemur í frétt AFP.

Yfirvöld í Queensland-ríki í Ástralíu höfðu heitið verðlaunum fyrir upplýsingar um þann sem stæði á bak við uppátækið og stjórnvöld í landinu hækkuðu viðurlög sem ná til slíkra afbrota í kjölfar þess að nálar fundust í september í jarðarberjum sem seld höfðu verið í matvöruverslunum. Málið olli miklum óhug í Ástralíu.

Eitt tilfelli var einnig tilkynnt á Nýja-Sjálandi. 

Lögreglan segir að fimmtug kona hafi verið handtekin í morgun í kjölfar rannsóknar á málinu. Reiknað er með að konan verði ákærð vegna málsins síðar í dag. Ekki hafa verið veittar nánari upplýsingar um handtökuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert