Íbúar hjálpsamir vegna eldanna

Í Malibu hefur á tímum ekki sést til sólar fyrir …
Í Malibu hefur á tímum ekki sést til sólar fyrir reyk og mörg hús hafa orðið eldi að bráð. AFP

Skógareldar geisa enn í Kaliforníu, en veðurskilyrði til slökkvistarfs hafa víða verið slæm í dag, einkum vegna vinds. 26 eru látnir af völdum eldanna, en margir þeirra létust á flótta undan eldinum í bílum sínum.

Norðarlega í ríkinu gleyptu eldarnir bæinn Paradise, en nær allir hinna látnu fundust þar. Talið er að um 6.700 byggingar; heimili, fyrirtæki og stofnanir, hafi orðið eldinum að bráð. Talið er að rúmlega 250 þúsund manns hafi þurft að flýja heimili sín í ríkinu á heildina litið.

Öskuflyksur allt um lykjandi í borginni

Unnur Eggertsdóttir leikkona býr í Norður-Hollywood, í um hálftíma fjarlægð frá Malibu, en þar hafa miklir eldar einnig geisað og nærri tvö hundruð heimili orðið eldinum að bráð. Ögn norðar, við bæinn Thousand Oaks, er ástandið einnig slæmt og slökkviliðsmenn aðeins náð að temja um tíu prósent eldanna.

Unnur kveðst ekki vera í eldhættu sjálf, en hún hefur rétt út hjálparhönd til vina sem þurft hafa að flýja heimili sín vegna hamfaranna. Hún nefnir sem dæmi vinkonu sem hafi fátt getað tekið með sér og þær því þurft að kaupa ný föt. Hún segir að þeir sem búi á hættusvæðum fái skýr skilaboð um það hvort eða hvenær þeir þurfi að flýja. „Við hin fylgjumst vel með og fjölmiðlar eru duglegir að upplýsa um það hvar er þörf á hjálp og hvernig er hægt að hjálpa,“ segir hún og nefnir að loftgæði í borginni séu mjög slæm.

Unnur Eggertsdóttir, leikkona, býr í Norður-Hollywood, ekki langt frá skógareldum …
Unnur Eggertsdóttir, leikkona, býr í Norður-Hollywood, ekki langt frá skógareldum sem geisað hafa í Kaliforníu undanfarna daga. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er mjög heppilega staðsett með það að eldarnir munu líklega ekki ná að húsinu mínu, en það gerir reykurinn samt mjög auðveldlega. Það liggur þykkur reykjarmökkur yfir allri borginni og þetta fer dálítið eftir því hvernig vindarnir liggja. Í gær var þetta sérstaklega slæmt og lyktin er mjög sterk,“ segir hún og bætir því við að öskuflyksur hafi verið allt um lykjandi í borginni.

Íbúarnir hafi staðið þétt saman

Hún nefnir að íbúar Los Angeles hafi tekið höndum saman og sýnt mikinn samhug. Komið hafi verið upp einföldum leiðum til að leggja til fjármuni til hinna bágstöddu.

„Þeir sem geta hafa verið beðnir að fara með vatn og mat þarna upp eftir og það er búið að koma upp neyðarskýlum víða. Fólk hjálpast mikið að í þessu og það hefur verið auðvelt að finna út hvar er hægt að leggja inn á sjóði, t.d. til þess að hægt sé að útvega vatn. Það er gott að sjá hvað fólk er tilbúið að standa saman þegar á reynir. Það er annað en Bandaríkjaforseti sem hefur hótað að taka pening af Kaliforníu í refsiskyni fyrir eldana,“ segir Unnur.

Bærinn Paradise er sagður hafa þurrkast út í heild sinni …
Bærinn Paradise er sagður hafa þurrkast út í heild sinni í skógareldunum. AFP

Líkt og áður sagði hefur fjöldi fólks týnt lífi vegna eldanna. Unnur segir dánartölurnar skelfilegar. „Það sem er auðvitað hræðilegast við þetta allt saman er fólkið sem hefur dáið við að reyna að komast undan eldinum á bílunum sínum. Það sem minna hefur verið fjallað um í fréttum eru síðan öll dýrin sem hafa orðið eftir á svæðinu. Í Malibu er t.d. mikið af hestum sem hafa brunnið inni því fólkið þarna hefur þurft að bjarga sjálfu sér,“ segir hún.

„Maður vonar auðvitað að það takist að slökkva eldana sem allra fyrst. Slökkviliðsmennirnir og -konurnar í borginni eiga ótrúlega mikið hrós skilið, þau eru í hættulegum aðstæðum allan daginn að reyna að slökkva eldana á meðan þeirra eigin heimili hafa kannski orðið eldunum að bráð. Þetta er óeigingjarnt hættulegt starf og þau eiga óendanlega mikið lof skilið,“ segir Unnur.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert