Mótmæltu Trump berbrjósta

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og forsetafrúin Melania Trump í Frakklandi …
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, og forsetafrúin Melania Trump í Frakklandi í dag. AFP

Franska lögreglan stöðvaði tvær berbrjósta konur sem reyndu að komast að bílalest Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, í París, höfuðborg Frakklands, í dag. Trump er staddur í borginni í tilefni af því að öld er liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Fram kemur í frétt AFP að konurnar tilheyri femínistasamtökunum Femen og hafi viljað mótmæla forsetanum. Önnur konan komst í nokkurra metra fjarlægð frá bílalestinni eftir að hafa stokkið yfir girðingu áður en lögreglan yfirbugaði hana. Var hún með slagorð ritað á líkama sinn. Hin var handtekin af öryggisvörðum við girðinguna.

Inna Shevchenko, einn af leiðtogum Femen, sagði samtökin bera ábyrgð á mótmælunum á samfélagsmiðlinum Twitter. Sagði hún aðgerðasinna samtakanna hafa tekið á móti Trump í tvígang á leið hans til hátíðarhaldanna sem fram fara við Sigurbogann í París.

Samkvæmt fréttinni var bílalestin stöðvuð tímabundið vegna þessa atviks af öryggisástæðum en hélt síðan áfram ferð sinni skömmu síðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert