„Við getum ekki stöðvað Brexit“

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP

Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins, segir í viðtali við þýska tímaritið Spiegel að ekki sé hægt að stöðva útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Gert er ráð fyrir að Bretland segi skilið við Evrópusambandið formlega 29. mars á næsta ári. Viðræður hafa staðið yfir um það með hvaða hætti verði staðið að útgöngunni á milli breskra stjórnvalda og sambandsins sem ekki hefur enn skilað sér í samkomulagi.

Blaðamaður Spiegel spurði Corbyn hvort hann myndi stöðva útgönguna, eða „Brexit“ eins og hún hefur verið kölluð, ef hann gæti það, en rætt hefur verið um að ef Theresu May forsætisráðherra mistekist gæti Corbyn tekið við sem forsætisráðherra.

„Við getum ekki stöðvað Brexit. Þjóðaratkvæðið fór fram. Grein 50 var virkjuð. Það sem við getum gert er að átta sig á því hvers vegna fólk greiddi atkvæði með útgöngunni,“ segir Corbyn í viðtalinu og vísar þar til greinar í sáttmálum Evrópusambandsins.

Corbyn segir að stjórnmálamenn hafi til að mynda brugðist mörgu fólki í Bretlandi. Mestur stuðningur við útgöngu hafi verið á þeim svæðum sem stæðu höllustum fæti. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert