149 látnir á einum sólarhring

Að minnsta kosti 149 létust síðasta sólarhringinn í átökum milli stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar og uppreisnarmanna í jemensku borginni Hodeida. Almennir borgarar eru meðal þeirra sem létust, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar innan úr hernum og frá læknum. 

Læknar á sjúkrahúsum í Hodeida segja að 110 hútar hafi fallið og 32 hermenn hliðhollir ríkisstjórninni. Samkvæmt upplýsingum frá hernum gerðu hersveitir undir forystu Sádi-Araba ítrekaðar árásir úr lofti á uppreisnarmenn í nótt.

Líkt og kom fram í frétt Boga Þórs Arasonar í Morgunblaðinu nýverið er helmingur íbúa Jemens, eða fjórtán milljónir manna, algerlega háður aðstoð hjálparstofnana til að halda lífi og hætta er á hungursneyð á næstu mánuðum, að sögn embættismanna Sameinuðu þjóðanna. Á meðal þeirra sem þurfa aðstoð vegna matvælaskorts eru meira en sjö milljónir barna, að sögn embættismanna Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

„Um 1,8 milljónir barna undir fimm ára aldri standa núna frammi fyrir alvarlegri vannæringu og 400.000 börn þjást nú þegar af alvarlegri vannæringu,“ hafði fréttaveitan AFP eftir Geert Cappelaere, svæðisstjóra UNICEF í Jemen. Hann bætti við að talið væri að fjórtán milljónir Jemena þyrftu á matvælaaðstoð að halda og þar af væri meira en helmingurinn börn. Cappelaere sagði að til að bjarga öllum börnunum nægði ekki að binda enda á stríðið í landinu og hann benti á að Jemen var fátækasta arabaríkið áður en átökin hófust. „Við þurfum að sjá til þess að stríðinu ljúki en einnig að koma á stjórnkerfi þar sem fólkið og börnin eru í fyrirrúmi. Ástandið var orðið slæmt fyrir vegna margra ára vanþróunar og stríðið gerir það enn verra.“

UNICEF sagði í fréttatilkynningu í vikunni sem leið að alls þyrftu meira en ellefu milljónir barna – um 80% allra barna í landinu – á aðstoð að halda sökum skorts á matvælum og öðrum lífsnauðsynjum og vegna smitsjúkdóma sem breiðast út, meðal annars kóleru. Talið er að um sextán milljónir Jemena hafi ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni og hreinlætisaðstöðu og þar af séu 1,2 milljónir í bráðri þörf fyrir aðstoð, að sögn UNICEF.

Tala látinna óljós

Stríðið hófst fyrir rúmum þremur árum með uppreisn húta sem njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran og hafa náð stórum hluta Jemens á sitt vald, meðal annars höfuðborginni Sana. Sádi-Arabía og fleiri arabaríki hafa gert loftárásir á yfirráðasvæði uppreisnarmannanna og notið stuðnings stjórnvalda í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.

Cappelaere sagði að UNICEF gæti staðfest að rúmlega 6.000 börn hefðu beðið bana eða særst alvarlega í árásum frá því að stríðið hófst árið 2015. „Þetta eru dauðsföll sem við getum staðfest en við teljum að hægt sé að ganga út frá því sem vísu að tala látinna sé miklu hærri,“ hafði AFP eftir honum.

Í fréttum um stríðið í Jemen er oft skírskotað til þess að embættismenn Sameinuðu þjóðanna hafa sagt að 10.000 manns hafi beðið bana í hernaðinum. Breska vefblaðið The Independent segir að sú tala hafi fyrst verið nefnd í byrjun síðasta árs og allt bendi til þess að manntjónið sé orðið miklu meira. Stríðsrannsóknahreyfingin ACLED telur að 56.000 manns hafi beðið bana í átökunum frá janúar 2016 til október í ár og rúmlega 2.000 manns hafi látið lífið á mánuði á síðari helmingi ársins. Óvissan um manntjónið er m.a. rakin til þess að stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa torveldað blaðamönnum og fulltrúum alþjóðasamtaka að fara til Jemens í því skyni að afla upplýsinga um ástandið, að sögn The Independent.

Mörg dauðsföll ekki skráð

Í fréttatilkynningu UNICEF kom fram að rúmur helmingur heilbrigðisstofnana Jemens hefur lagt niður starfsemi vegna skemmda sem hafa orðið í árásunum eða vegna skorts á rekstrarfé og starfsfólki. Dæmi séu um að starfsfólk sjúkrahúsa hafi ekki fengið laun greidd í rúm tvö ár.

Embættismenn Sameinuðu þjóðanna hafa sagt að talið sé að um 50.000 Jemenar hafa látið lífið af völdum hungurs eða sjúkdóma. Mark Lowcock, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að dánartalan sé líklega mun hærri í raun þar sem margir komist ekki á sjúkrahús og deyi heima hjá sér. „Mjög fáar fjölskyldur skýra yfirvöldum frá slíkum dauðsföllum og þau eru því ekki skráð,“ hefur fréttaveitan UPI eftir Lowcock, sem samhæfir hjálparstarf stofnana Sameinuðu þjóðanna.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert