Bandarísk orrustuþota brotlenti

Bandarísk orrustuþota af gerðinni F/A-18.
Bandarísk orrustuþota af gerðinni F/A-18. AFP

Bandarísk orrustuþota brotlenti í hafinu við Filippseyjar skammt suður af japönsku eyjunni Okinawa. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC.

Þar segir að vélarbilun hafi skyndilega gert vart við sig í orrustuþotunni, sem var af gerðinni F/A-18 Hornet, og tveggja manna áhöfn hennar hafi fyrir vikið neyðst til þess að skjóta sér út úr þotunni. Henni var bjargað skömmu síðar úr sjónum við góða heilsu og flutt um borð í bandaríska flugmóðurskipið USS Ronald Reagan.

Bandaríkjamenn eru með herstöð á Okinawa en orrustuþotan tilheyrði 7. flota bandaríska sjóhersins sem er um þessar mundir staðsettur í Kyrrahafinu við strendur Asíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert