Fæddi barn eftir nauðgun og er í fangelsi

Konan á myndinni tekur þátt í samstöðufundi fyrir réttinum til …
Konan á myndinni tekur þátt í samstöðufundi fyrir réttinum til þungunarrofs. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Kona, sem sætti kynferðislegri misnotkun af hálfu stjúpföður síns frá 12 ára aldri, á nú yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisdóm, eftir að hafa fætt barn stjúpföðurins inni á klósetti í El Salvador.

Guardian fjallar um málið og segir það beina athyglinni að því hve ströng fóstureyðingalöggjöf er í El Salvador. Konan, hin tvítuga Imelda Cortez, kemur úr fátækri bændafjölskyldu í nágrenni borgarinnar San Miguel.  Hún hefur verið í varðhaldi frá því að hún fæddi barnið í apríl í fyrra, en móðir hennar hafði þá komið að henni kvalinni og með miklar blæðingar inni á baðherbergi og var hún flutt á sjúkrahús með hraði.

Læknirinn sem tók á móti henni á neyðarmóttökunni hafði hana grunaða um að hafa reynt að eyða fóstrinu og kallað til lögreglu. Barnið reyndist hins vegar heilbrigt.

18 mánuði í fangelsi án dóms

Cortez hafði sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu 70 ára stjúpföður síns frá því hún var 12 ára. Hún segist ekki hafa haft hugmynd um að hún hafi verið ólétt. Barnið lifði en Cortez var ákærð fyrir morðtilraun. Henni var neitað um lausn á grundvelli tryggingagreiðslu og var send í fangelsi eftir vikudvöl á spítala og hefur nú dvalið þar í 18 mánuði án dóms.

„Þetta er eitt öfgafyllsta og hneykslanlegasta dæmið um óréttlæti í garð kvenna sem ég hef nokkurn tímann kynnst,“ hefur Guardian eftir Bertha María Deleón, einum lögfræðinga Cortez. „Ríkið hefur ítrekað brotið gegn réttindum Imeldu sem er fórnarlamb; þetta hefur mikil áhrif á hana en henni er neitað um sálfræðiaðstoð.

Hótaði að drepa systkini hennar og móður

Fóstureyðingar eru með öllu bannaðar í El Salvador og hefur bannið leitt til harkalegra ofsókna í garð kvenna.

Eins og Cortez eru flestar þeirra kvenna, sem dæmdar eru á grundvelli vandkvæða sem koma upp við fæðingu eða þegar fósturlát verður, einhleypar og koma úr landbúnaðarsamfélögum.

Á meðan Cortez dvaldi enn á sjúkrahúsinu heimsótti stjúpfaðir hennar hana og hótaði að drepa hana, systkini hennar og móður ef hún greindi frá misnotkuninni. Annar sjúklingur heyrði til hans og sagði hjúkrunarkonu frá, hún kallaði svo til lögreglu.

Í fyrstu ásakaði saksóknari Cortez um að ljúga til um misnotkunina til að réttlæta glæp sinn, eða þar til DNA-próf staðfesti faðerni barnsins.

Stjúpfaðir hennar hefur enn ekki verið ákærður, en málaferlin gegn Cortez hefjast í dag og er búist við að dómararnir þrír muni komast að niðurstöðu í málinu á innan við viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert