Fyrsta mál að koma fjölskyldunni í skjól

Brunnir bílar á veginum til bæjarins Paradise. Bæjarstjórinn telur 90% …
Brunnir bílar á veginum til bæjarins Paradise. Bæjarstjórinn telur 90% af íbúahverfum bæjarins vera ónýt. AFP

Um 228 manns er enn saknað vegna gróðurelda sem enn geisa í Kaliforníu. Að minnsta kosti 31 er látinn, en tekist hefur að hafa uppi af 107 manns sem áður var saknað, að sögn Kory Honea, lögreglustjóra Butte-sýslu. Eldarnir eru þeir skæðustu sem upp hafi komið í sýslunni og er manntjón í gróðureldunum þremur sem nú loga í Kaliforníuríki nú orðið jafnmikið og í Griffith Park-gróðureldunum í Los Angeles árið 1933.

Honea segir lögreglumönnum í sýslunni hafa borist yfir 550 símtöl frá fólki sem leitar ættingja og vina. Hann segir að fimm manns hafi fundist látnir á heimilum sínum á sunnudag og að sá sjötti hafii fundist látinn í bíl.

Einn þeirra sem leitar fjölskyldu sinnar er Sol Bechtold, sem leitaði móður sinnar Joanne Caddy í nágrenni Fairgrounds. Hann sagði síðustu daga hafa verið  erfiða. „Við komumst að því um daginn að hús hennar hafði eyðilagst,“ sagði Bechtold í samtali við CNN.  „Við vitum ekki hvað varð um hana. Hún er heimakær og á ekki bíl. Ég verð að finna mömmu — ég er ekki búin að gefa upp von um að hún sé einhvers staðar.“

CNN segir grun um gripdeildir í Paradise og á fleiri stöðum þar sem íbúar hafa verið fluttir á brott vegna gróðureldanna.

Slökkviliðsmaður að störfum við gróðureldana sem loga í Woolsey.
Slökkviliðsmaður að störfum við gróðureldana sem loga í Woolsey. AFP

Hafa misst eigin heimili en leita þeirra sem saknað er

Yfirvöld hafa varað við að búast megi við vindhviðum sem nái allt að 112 km/klst. næstu daga og eldarnir kunni því að breiðast enn hraðar út. „Vindarnir blása nú þegar og þeir munu blása áfram næstu þrjá daga. Maður getur endurreist hús sitt, en það er ekki hægt að vekja mann til lífsins á ný,“ sagði Daryl Osby, lögreglustjóri Los Angeles.

Rúmlega 30 lögreglumenn í Butte-sýslu halda líka áfram baráttunni við eldana þrátt fyrir að hafa misst heimili sín. Útvarpsstöðin KTXL hefur eftir einum þeirra, Jarrod Hughes, að heimili hans hafi brunnið í eldunum í Paradise. Engu að síður hafi hann mætt strax til vinnu aftur um leið og hann var búin að koma syni sínum í öruggt skjól. Hughes leitar nú þeirra sem saknað er.

„Þetta er samfélagið þar sem ég ólst upp. Þetta er gjörsamlega eitthvað sem að ég varð að gera. Það var enginn spurning,“ segir Hughes. „Fyrsta mál var að koma fjölskyldu minni í öruggt skjól og svo var það að hjálpa öllum öðrum.“

Brunarústir við Point Dume í Malibu.
Brunarústir við Point Dume í Malibu. AFP

90% íbúasvæða horfin

„Meirihluti íbúasvæðanna eru horfin. Ég myndi segja 90% þeirra,“ hefur BBC eftir Jody Jones bæjarstjóra Paradise um ástandið þar. „Mér gafst tækifæri á að fara þangað og sjá og hér um bil allir hafa misst heimili sín.“ Áður hefur verið greint frá því að yfir 6.700 heim­ili í bænum hafi orðið eld­in­um að bráð.

Um 111.000 ekrur lands hafa brunnið í Butte-sýslu og hefur slökkvilið ná tökum á um fjórðungi eldsins. Því kunna eldar, að sögn BBC, að loga í daga og jafnvel vikur til viðbótar. Í Woolsey hafa nú um 85.000 ekrur lands brunnið og 117 byggingar hið minnsta hafa eyðilagst.

Efnamannahverfi í Malibu eru meðal þeirra staða sem hafa orðið eldunum að bráð og eru tón­list­ar­menn­irn­ir Neil Young og Robin Thicke og leik­ar­inn Ger­ard Butler í hópi þeirra sem misst hafa heim­ili sín.

Butler birti mynd á Twitter af bruna­rúst­um heim­il­is síns í Mali­bu og þakkaði slökkviliðsmönn­um fyr­ir það hug­rekki sem þeir sýndu í bar­átt­unni við eld­ana og Young harmar í færslu á veðsíðu sinni áhrif lofts­lags­breyt­inga. „Ég hef áður misst heim­ili mitt í gróðureld­um í Kali­forn­íu og nú ger­ist það aft­ur,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert