Illgirni réð för

AFP

Áströlsk kona sem var handtekin í gær sökuð um að hafa komið saumnálum fyrir í jarðarberjum gerði það af illgirni, samkvæmt því sem kemur fram í skjölum sem lögð voru fyrir dómara í dag.

My Ut Trinh, sem er fimmtug að aldri, starfaði áður við eftirlit á jarðarberjabúgarði norður af Brisbane. Að sögn dómarans, Christine Roney, réð illgirni eða hefnigirni för hjá Trinh en hún framdi illvirkin í nokkra mánuði áður en hún náðist.

Ekki hefur komið fram hvort Trinh muni neita sök en ef hún verður fundin sek á hún yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisdóm. Að sögn lögreglu bárust alls 186 tilkynningar um jarðarber með saumnálum frá því í september. Tilkynningarnar komu bæði frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi. 15 þeirra reyndust gabb. Ekki er vitað hversu margar nálar koma frá Trinh en lögreglan sagði í dag að rannsókn málsins væri hvergi nærri lokið. 

Þegar Trinh var leidd fyrir dómara í dag kom fram að erfðaefni Trinh hafi fundist í jarðarberjum í Victoria. 

Fyrsta málið kom upp í Queensland þegar maður var fluttur á sjúkrahús vegna magaverkja eftir að hafa borðað jarðarber. Kom þá í ljós að nálum hafði verið komið fyrir í jarðarberjum. Mikil skelfing greip um sig hjá fólki og neyddust bændur til þess að henda tonnum af jarðarberjum og matvöruverslanir hættu að selja jarðarber. Ástralska ríkisstjórnin þyngdi refsingar fyrir að koma aðskotahlutum fyrir í ávöxtum og berjum í 10-15 ára fangelsi til þess að stöðva illvirkin en gríðarlegir fjármunir voru í húfi fyrir bændur sem hafa lífsviðurværi sitt af jarðarberjaræktun. 

Saksóknarar fóru fram á að Trinh yrði ekki látin laus gegn tryggingu enda væri henni ekki óhætt þar sem gríðarleg reiði er meðal fólks í hennar garð. Að sögn dómara kemur ekki til greina að láta hana lausa úr gæsluvarðhaldi fyrr en frekari upplýsingar um málið liggja fyrir.

Frétt BBC

mbl.is
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...
Greinakurlari
Greinakurlari sem drifinn er með bensínmótor. Öflugur og meðfærilegur kurlari w...
Skurðarskífur
Eigum til góðar skurðarskífur 125mm*1mm, gott verð 120 kr stk með vsk. Uppl 77...
Harðviður til húsbygginga
Harðviður til húsabygginga Sjá nánar á www.vidur.is Vatnsklæðning, panill, palla...