Varar við eyðleggingu hafnarinnar

Hermenn hlynntir stjórnvöldum í Jemen í útjarðri hafnarborgarinnar Hodeida.
Hermenn hlynntir stjórnvöldum í Jemen í útjarðri hafnarborgarinnar Hodeida. AFP

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, varaði við því í dag að eyðilegging hafnarinnar í borginni Hodeida í Jemen gæti haft hörmulegar afleiðingar fyrir ástandið í landinu enda gegndi höfnin lykilhlutverki í að koma matvælum og lyfjum til landsins þar sem milljónir óbreyttra borgara ættu á hættu að látast úr hungri.

Mikil átök hafa staðið yfir um hafnarborgina við Rauðahafið á milli hersveita hliðhollum stjórnvöldum í Jemen, sem njóta stuðnings ráðamanna í Sádi-Arabíu, og uppreisnarmanna húta og hafa þau verið sérstaklega hörð undanfarinn sólarhring. Hafa stjórnarsinnar reynt að flæma húta frá borginni en uppreisnarmennirnir hafa haft hana á valdi sínu. 

„Verði Hodeida eyðilögð gæti það skapað algerlega hörmulegar aðstæður,“ sagði Guterres  við fjölmiðla í heimsókn til Parísar, höfuðborgar Frakklands. Sagði hann Jemen þegar standa frammi fyrir gríðarlega erfiðri stöðu þegar kæmi að almennum borgurum. Tilraunir hersveita stjórnarliða til þess að taka borgina ykju ekki líkurnar á friðarviðræðum.

Frá hafnarborginni Hodeida í síðustu viku.
Frá hafnarborginni Hodeida í síðustu viku. AFP

Kominn tími til þess að stöðva átökin

Guterres sagði að átökin yrðu að hætta, pólitískar viðræður yrðu að fara af stað og undirbúa þyrfti viðamiklar aðgerðir til þess að koma almennum borgurum til aðstoðar. Annars stæðu menn frammi fyrir enn verra ástand á næsta ári. Koma yrði stríðandi fylkingum í skilning um að átök þeirra í Jemen væru stríð sem enginn væri í reynd að vinna.

Enn fremur sagði framkvæmdastjórinn að samstaða væri á milli Bandaríkjanna, Rússlands, Evrópusambandsins og margra ríkja á svæðinu um að loks væri kominn tími til þess að binda enda á átökin. Rammasamkomulag að lausn á deilunni hefði verið lagt fram og kynnt fyrir stríðandi fylkingum. Sagði hann að fyrstu viðbrögð hefðu verið jákvæð.

„Fyrstu viðbrögð hafa verið tiltölulega jákvæð en að mínu áliti hefur málið staðið í stað vegna ástandsins í Hodeida,“ sagði Guterres. Sagði hann SÞ þegar sjá um átta milljónum Jemena fyrir mataraðstoð en sá fjöldi gæti aukist í 14 milljónir á næsta ári.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert