Faldi barnið í skottinu á bílnum

Rosa Maria Da Cruz, móðir stúlkunnar, með lögfræðingi sínum.
Rosa Maria Da Cruz, móðir stúlkunnar, með lögfræðingi sínum. AFP

Franskir dómstólar eru nú með mál konu til meðferðar sem sökuð er um að hafa leynt tilvist barns, sem hún geymdi í skottinu á bíl sínum að því er BBC greinir frá.

Það var bifvélavirki sem fann stúlkuna, þegar hann heyrði hávaða í bílnum sem komið hafði verið með til viðgerðar.

Hefur móðir stúlkunnar verið ákærð fyrir ítrekað ofbeldi í garð stúlkunnar og fyrir að hafa valdið henni varanlegri örorku. Á hún yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisdóm.

Konan, Rosa-Maria Da Cruz, er sögð hafa haldið þunguninni og fæðingu barnsins leyndu fyrir maka sínum og þremur eldri börnum. Stúlkuna, sem kölluð er Serena, faldi hún síðan í herbergi á heimilinu og í skotti bílsins.

Réttarhöldin yfir Da Cruz fara fram í borginni Tulle, en Serena fannst í bílnum í nágrannahéraðinu Dordogne.

Það var árið 2013 sem bifvélavirkinn fann Serenu og var þá talið að hún væri um tveggja ára gömul. Hún var verulega vannærð og bar merki um alvarlegra þroskahömlun, að því er fram kemur í dómsskjölum. Bifvélavirkinn sem fann stúlkuna sagði ólykt hafa tekið á móti sér þegar hann opnaði skottið og fann þar föla stúlku með sótthita, sem lá þar nakin í eigin skít.

Da Cruz, sem er af portúgölskum uppruna, sagði lögreglumönnum þegar stúlkan fannst að hún væri „ekki barn, heldur hlutur“. Kvaðst hún hafa byrjað að tala við stúlkuna „er hún var 18 mánaða gömul af því að hún hafði brosað [til sín]“.

Serena, sem er á sjöunda aldursári, er nú í fóstri. Eldri systkini hennar, sem einnig voru sett í fóstur um skeið, eru hins vegar komin aftur til foreldra sinna. Ákærur gegn maka Da Cruz, sem neitaði því að vita nokkuð um þungunina eða barnið, voru felldar niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert