Fengu 30.000 evra bónus fyrir mistök

Stálvinnslan hefur nú krafið verkamennina um endurgreiðslu. Nokkrir höfðu þó …
Stálvinnslan hefur nú krafið verkamennina um endurgreiðslu. Nokkrir höfðu þó þá þegar nýtt sér greiðsluna til að borga niður skuldir, eða í einhverjum tilfellum til að skella sér í spilavíti.

Verkamanna hjá stálvinnslu í Charleroi í Belgíu beið óvæntur glaðningur þessa helgina, er þeir uppgötvuðu auka 30.000 evra greiðslu (um 4,1 milljón kr.) á launaeikningi sínum.

Greiðslan, líkt og suma þeirra grunaði, reyndist þó vera til komin fyrir mistök bókara. Bónusinn sem þeir áttu að fá greiddan var öllu lægri — eða 100 evrur. 

BBC segir stálvinnsluna nú hafa krafið verkamennina um endurgreiðslu. Nokkrir höfðu þó þá þegar nýtt sér greiðsluna til að borga niður skuldir, eða í einhverjum tilfellum til að skella sér í spilavíti.

Ekki liggur fyrir hversu margir af þeim 230 sem starfa hjá Thy-Marcinelle-stálvinnslunni fengu bónusgreiðsluna, en Sudinfo-fréttavefurinn segir laun verkamanna þar í mörgum tilfellum nema um 1.600 evrum á mánuði. Guiseppe Picciuto, fyrrverandi yfirmaður verkalýðsfélagsins, segir þó ekki marga hafa fengið þennan bónus.

„Ég fékk áfall þegar ég sá svona mikið fé á reikningi mínum,“ hefur BBC eftir einum ónefndum starfsmanni sem fékk bónusgreiðsluna. „Það var hins vegar alveg ljóst að þetta voru mistök, þannig að ég snerti ekki féð. Ég tók bara launin mín og sett hinn hlutann til hliðar í varúðarskyni.“

Hann kvaðst þó vita til þess að sumir starfsmenn hefðu eytt hluta fjárins. „Ég veit að sumir fóru í spilavíti, aðrir voru með skuldir og í enn öðrum tilfellum var féð sjálfkrafa tekið af bankareikningum þeirra.

Vinnuréttindalögfræðingurinn Etienne Piret sagði lögin vera alveg skýr varðandi tilfelli sem þetta. Verkamennirnir verði að endurgreiða féð til fulls.

„Jafnvel þó að þeir geti fullyrt að gjörðir þeirra hafi verið í góðri trú og að þeir telji sig raunverulega hafa átt rétt á þessum bónus, sem er vafasamt,“ sagði Piret.

Ekki sé þó útilokað að þeir geti óskað eftir frestun á endurgreiðslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert