Fljúgandi furðuhlutir við Írlandsstrendur

Ekki fljúgandi furðuhlutur heldur leyniþjónusta Bandaríkjanna. En hvað sáu flugstjórar …
Ekki fljúgandi furðuhlutur heldur leyniþjónusta Bandaríkjanna. En hvað sáu flugstjórar í gær undan ströndum Írlands? Af vef Wikipedia

Írsk flugumferðaryfirvöld eru að rannsaka tilkynningar flugmanna um fljúgandi furðuhluti og skær ljós undan suðvesturströnd Írlands á föstudag. Það er breska ríkisútvarpið BBC sem greinir frá. 

Atburðarásin hófst, samkvæmt BBC, á föstudaginn, 9. nóvember, þegar flugstjóri frá British Airways hafði samband við flugumferðaryfirvöld í Shannon, Írlandi, til að tilkynna um fyrirbæri sem flaug á miklum hraða og hélt að um væri að ræða einhvers konar heræfingar. Flugumferðarstjórn kannaðist ekki við neitt slíkt. 

Flugstjórinn sem var að fljúga frá Montreal í Kanada til Heathrow-flugvallar í London sagði að hún hefði séð „mjög skært ljós og svo einhvers konar hlut sem kom upp að flugvélinni á vinstri hönd og tók svo skarpa beygju beint til norðurs á ógnarhraða.“

Annar flugstjóri sem var að fljúga flugvél frá Virgin Airlines sá einnig skær ljós og velti fyrir sér hvort þetta gæti verið einhvers konar loftsteinn eða annar hlutur sem væri að fara í gegnum lofthjúp jarðar. Hann sagði „marga hluti fylgja hver öðrum á sömu braut og voru afar skærir.“ Svo sá hann tvo skæra hluti á hægri hlið sem svo hækkuðu flugið mjög hratt. 

Þriðji flugstjórinn sagði flugumferðarstjórn að hann hefði séð hluti ferðast á ógnarhraða, tvöföldum hraða hljóðsins. 

Írsk flugumferðaryfirvöld hafa gert skýrslu um þessi atvik og eru að rannsaka þau. 

Frétt BBC má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert