Fundu Kiöru rúmu ári seinna

Það tekur um sex til sjö tíma að aka á …
Það tekur um sex til sjö tíma að aka á milli London og Bangor, þar sem Kiara fannst um liðna helgi, rúmu ári eftir að henni var stolið. Kort/Google

Í ágúst 2017 var tíkin Kiara tekin ófrjálsri hendi úr garðinum sínum í London á Englandi. Nú, rúmu ári síðar, fannst hvuttinn í borginni Bangor í norðurhluta Wales, um 480 km í burtu frá heimili sínu.

Kiara, sem er ellefu ára gömul pomeranian-tík, valsaði inn í garð Peter Daniel í Bangor ásamt öðrum flækingshundi fyrir skemmstu. Daniel sá að Kiara var örmerkt og það varð til þess að hann gat haft uppi á eigendunum, þeim Juan og Antoinette Mino.

Antoinette segir í samtali við BBC að hún sé svo þakklát að Kiara hafi fundist, en hún sagðist vera búin að gefa upp alla von. 

Daniel segist hafa séð hundana vera að fara í gegnum sorptunnurnar á laugardaginn þegar hann var á leið til vinnu. Kiara fór svo inn til hans og ætlaði að gera sig heimakomna þar.

Hann greindi frá fundinum á samfélagsmiðlasíðum þar sem hægt er að lýsa eftir týndum hundum. Daginn eftir bauðst kona til að lesa af örmerkinu og þá kom í ljós að þar var að finna símanúmer eigendanna. Hinn hundurinn reyndist ekki vera með örmerki. 

„Þau ætluðu ekki að trúa þessu, ég á sjálfur bágt með að trúa þessu,“ segir Daniel. 

„Á meðan ég var að ræða við konuna sem átti hundinn var sambýlismaður hennar að fara upp í bíl til að aka hingað, en það er sex til sjö tíma akstur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert