Komnir að landamærum Bandaríkjanna

Hundruð íbúa Mið-Ameríkuríkja sem undanfarnar vikur hafa ferðast fótgangandi á leið sinni til Bandaríkjanna eru nú komnir til borgarinnar Tijuana sem er á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.

Um 400 manns eru í hópnum, sem meðal annars telur hinsegin fólk, og klauf hann sig í Mexíkóborg frá stærri hópi um 5.000 hælisleitenda sem einnig eru á leið að landamærunum.

BBC segir James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hafa greint frá því að hann muni heimsækja landamærin í dag. Er það fyrsta heimsókn ráðherrans þangað frá því að þúsundir bandarískra hermanna voru sendar á staðinn til að hindra hælisleitendur í að komast yfir.

Búist er við stærri hópum hælisleitenda að landamærunum á næstu dögum.

Fólkið, sem kemur frá Hondúras, Gvatemala og El Salvador, segist vera að flýja ofsóknir, fátækt og ofbeldi í heimalandi sínu.

Hælisleitendur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Hælisleitendur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. AFP

Bannað að óska eftir hæli

Donald Trump Bandaríkjaforsetin hefur lagst hart gegn því að fólkinu verði hleypt yfir landamærin og hefur talað um „árás“. Það er engu að síður harðákveðið í að halda för sinni áfram.

Krafðist Trump þess að allt að 9.000 hermenn yrðu sendir að landamærunum og lokuðu bandarísk yfirvöld í gær tveimur akreinum sem liggja frá Tijuana og inn í Kaliforníuríki, svo hermenn gætu komið fyrir gaddavír og öðrum hindrunum til að torvelda fólkinu för.

Samkvæmt bandarískum lögum ber yfirvöldum að taka til efnislegrar meðferðir hælisósk þeirra sem komnir eru yfir til Bandaríkjanna, ef þeir segjast óttast ofbeldi í heimalandi sínu.

Í síðustu viku undirritaði Trump hins vegar forsetatilskipun sem bannar þeim hælisleitendum sem koma ólöglega til landsins tímabundið að óska eftir hæli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert