„Reiða löggan“ fannst látin

Maggy Biskupski sést hér fyrir miðju.
Maggy Biskupski sést hér fyrir miðju. AFP

Frönsk lögreglukona, sem vakti mikla athygli fyrir baráttu sína gegn ofbeldi í garð lögreglu, fannst látin á heimili sínu á mánudagskvöldið.

Maggy Biskupski var forseti hreyfingar „reiðra lögreglumanna“ en hreyfingin; L'association Mobilisation des piliciers en colère, varð til eftir að bensínsprengjum var varpað á lögregluna árið 2016.

Biskupski hafði framið sjálfsvíg með því að skjóta sig með lögreglubyssu sinni í Yvelines, vestur af París. Eitt af því sem MPC-hreyfingin benti á var há sjálfsvígstíðni meðal franskra lögreglumanna en á fyrstu tíu mánuðum ársins frömdu 29 franskir lögreglumenn sjálfsvíg. 

Samkvæmt frétt Le Parisien fannst lík Biskupski eftir að vinur hennar var farinn að undrast um hana. Hún stofnaði MPC árið 2016 eftir að ráðist var á fjóra lögreglumenn og meðal annars bensínsprengjum kastað að þeim í Viry-Chatillon. Tveir þeirra særðust alvarlega og í kjölfarið tóku lögreglumenn að mótmæla þeim aðstæðum sem þeir væru settir í og áhættu í starfi. Hreyfingin stækkaði hratt og starfaði þvert á stéttarfélög lögreglumanna. 

Biskupski var á sínum tíma til rannsóknar hjá innra eftirliti lögreglunnar vegna aðgerða sinna en hún lét það ekki hafa áhrif á sig og kom víða fram opinberlega þar sem hún tjáði skoðanir sínar. 

Innanríkisráðherra Frakklands, Christophe Castaner, er meðal þeirra sem minnast hennar sem lögreglukonu og aðgerðasinna. Á Twitter lýsir hann sorginni sem fylgir andláti hennar og að barátta hennar megi ekki deyja út. „Ég heyri af reiði lögreglumanna og við svörum henni með því að fjölga lögreglumönnum og bæta stöðu þeirra.“ 

Marine Le Pen, forseti Þjóðfylkingarinnar, segir dauða Biskupski tákn um þjáningar sem hún hafi lýst ítrekað. Gera þurfi breytingar á aðstæðum þeirra.

Frétt BFMTV

Maggy Biskupski.
Maggy Biskupski. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert