Telja 9.000 fórnarlömb mansals

Á Aker-bryggju í Ósló, ráðhúsið í baksýn.
Á Aker-bryggju í Ósló, ráðhúsið í baksýn. mbl.is/Golli

Talið er að allt að 9.000 manns lifi sem þrælar í Noregi, ef marka má Global Slavery Index-vísitöluna sem áströlsku góðgerðarsamtökin Walk Free Foundation gefa út. Samtökin raða 167 löndum á lista eftir þáttum á borð við vinnuþrælkun, kynlífsþrælkun, þvinguð hjónabönd, þvingun til að gegna hermennsku og fleiri þætti sem fallið geta undir þrælahald eða mansal og lendir Noregur í 140. sæti listans árið 2018, en samtökin reikna út að 1,81 af hverjum 1.000 íbúum landsins sæti nútímaþrælahaldi (e. modern slavery).

Norska ríkisútvarpið NRK greindi frá tölfræðinni í gær og fór yfir ástandið í Ósló þar sem ýmis dæmi voru tínd til, svo sem kynlífsþrælkun erlendra kvenna og bílþvottastöðvar þar sem starfsfólkið er neytt til að vinna 14 klukkustundir á dag sjö daga vikunnar fyrir sultarlaun en ríkisútvarpið gerði ítarlega úttekt á síðarnefnda málinu í mars í fyrra undir fyrirsögninni Vinnueftirlitið gleymdi okkur.

Höfðu afskipti af málefnum 262 fórnarlamba

Árið 2016 hafði norska lögreglan afskipti af málefnum alls 262 einstaklinga sem töldust vera fórnarlömb mansals og gerir samhæfingardeild lögreglunnar í mansalsmálum (n. Koordineringsenheten for ofre for menneskehandel (KOM)) grein fyrir þessu í skýrslu sinni fyrir árið 2017 sem gefin var út í síðustu viku og má lesa hér.

Í skýrslu sinni slær deildin því fram að Norðmenn séu of fáfróðir um mansal og útbreiðslu þess í landinu og fara þurfi í samræmdar aðgerðir á vegum fjölda embætta og eftirlitsstofnana til að vinna á þessu samfélagsmeini.

Hjálpræðisherinn í Ósló hefur komið upp leynilegu athvarfi fyrir fórnarlömb mansals sem ákveða að flýja yfirboðara sína og freista þess að leita sér hjálpar og rjúfa þann ömurlega vítahring sem þau eru föst í. Þarna er að finna rúm, matvæli og hreinlætisvörur en heimilisfangið er ekki gefið upp. Hjálpræðisherinn skýtur þarna skjólshúsi yfir fólk sem hefur þörf fyrir að fara huldu höfði þar til formleg aðstoð fæst handa því.

„Hér getum við tekið á móti fólki með engum fyrirvara,“ segir Leif-Tore Solberg hjá Hjálpræðishernum í samtali við NRK og bætir því við að síðan athvarfið tók til starfa árið 2016 hafi um 20 manns leitað þangað og verið á flótta frá nauðungarvinnu, flestir frá löndum Austur-Evrópu.

Mildrid Mikkelsen, stjórnandi Rosa-verkefnisins, sem miðar að því að koma fórnarlömbum mansals til hjálpar, gagnrýnir tölur Global Slavery-vísitölunnar í viðtali við NTB-fréttastofuna sem Dagsavisen vitnar í og segir þær of háar. „Auðvitað er skuggatölfræðin töluverð í þessum geira, en þetta kemur ekki heim og saman við þann veruleika sem við sjáum dags daglega í okkar starfi,“ segir Mikkelsen.

Dagblaðið VG hefur einnig fjallað um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert