Vildi tryggja að mannfall yrði mikið

Flinders Street-lestarstöðin þar sem þeir ætluðu að gera árás.
Flinders Street-lestarstöðin þar sem þeir ætluðu að gera árás. AFP

Ástralskur dómstóll hefur dæmt þrjá menn seka um að skipuleggja hryðjuverkaárás í borginni Melbourne á jóladag og valda með því hámarksmanntjóni.

AFP-fréttastofan segir mennina þrjá, Hamza Abbas, Ahmed Mohamed og Abdullah Chaarani, sem allir eru á milli tvítugs og þrítugs, hafa keypt sveðjur og hráefni til að útbúa heimatilbúnar sprengjur. 

Fyrirhugaðar árásir átti að gera á fjöl­förn­um stöðum, lest­ar­stöð, torgi og dóm­kirkju.

Ibrahim Abbas, eldri bróðir Hamza Abbas, lýsti sig sekan fyrr á þessu ári af fyrirhugaðri hryðjuverkaárás sem fjórmenningarnir ætluðu að gera í desember 2016.

Ástralska dagblaðið Herald Sun sagði Ibrahim Abbas hafa greint réttinum frá því að hann „vildi tryggja að mannfallið yrði mikið“. „Því meira því betra, því meira því meiri skelfingu er náð og það er tilgangurinn.“

Hvernig á að útbúa sprengju í eldhúsinu hjá mömmu

Fimm voru handteknir í tengslum við  fyrirhugaða árás og eru þeir all­ir Ástr­al­ar, fjór­ir sem eru fædd­ir þar en eiga ætt­ir að rekja til Líb­anon en sá fimmti er ættaður frá Egyptalandi. Menn­irn­ir eru á þrítugs­aldri.

Leitað var á fimm stöðum í Mel­bour­ne en fylgst hafði verið með hópn­um vik­um sam­an og hafði lögregla m.a. fylgst með símtölum mannanna, textaskilaboðum og tölvupóstum. Þeir voru allir handteknir 22. desember 2016. 

Hafa saksóknarar gefið í skyn tengsl við tímaritsgrein í Al-Quaeda-tímaritinu Inspire sem fjallar um hvernig eigi að búa til sprengju í eldhúsinu hjá mömmu, en greininni hafði verið hlaðið niður í síma eins mannanna.

Þáverandi forsætisráðherra Ástralíu Malcolm Turnbull sagði áætlun mannanna á sínum tíma vera „eina umfangsmestu hryðjuverkaáætlun sem komið hefði verið í veg fyrir síðastliðin ár“.

Áströlsk yfirvöld segja að tekist hafi að koma í veg fyrir rúman tug fyrirhugaðra hryðjuverkaaðgerða undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert