May hefur þetta líklega ekki af

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, vill meina að útganga Breta sé …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, vill meina að útganga Breta sé í augsýn eftir að hún lagði fram drögin í dag. Margir þvertaka fyrir að ganga úr ESB með þessum skilyrðum. AFP

„Það er erfitt að telja saman meirihluta fyrir þessum samningi,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, í samtali við mbl.is um stöðuna í Bretlandi.

Enn getur samt brugðið til beggja vona. Eiríkur útilokar alls ekki að samningsdrög nái meirihluta í þinginu, til dæmis ef margir í Verkamannaflokknum velja að sitja hjá.

Hann sér samt ekki með góðu móti hvernig Theresa May forsætisráðherra Bretlands ætti að ná skýrum meirihluta í þinginu fyrir nýjum útgöngusamningi við ESB. Ef þetta svo kemst ekki í gegnum þingið, segir Eiríkur að May komi mjög líklega til með að stíga til hliðar. Það verði að ráðast í framhaldinu.

Dr. Eiríkur Bergmann leggur mat á stöðuna í Bretlandi. Bretar …
Dr. Eiríkur Bergmann leggur mat á stöðuna í Bretlandi. Bretar eru, segir hann, enn þá bara að deila um þetta sín á milli. mbl.is/Hari

Hart var sótt að Theresu May á breska þinginu í dag en ríkisstjórn hennar samþykkti í gær drög að útgöngusamningi úr ESB. Vindur blés því á May úr öllum áttum á breska þinginu en margir úr hennar eigin flokk hafa snúist gegn henni.

Eina von May er að þetta fari í gegnum þingið

Eiríkur segir May samt munu standa mótbyrinn af sér uns afdrif frumvarpsins í þinginu blasa við. Ef tillagan nær ekki í gegn, eru „hefðir í breskum stjórnmálum þannig að hún víkur sennilega bara af sjálfsdáðum“.

Útgöngusinnar í Íhaldsflokknum lögðu fram vantrauststillögu á May í dag. Þannig gætir klofnings í öllum flokkum og er síður en svo útséð hvernig þessu lýkur.

Þetta er enn þá allt opið

Eiríkur segir að enn séu nokkrir möguleikar í stöðunni. Fyrsti er sá að þingið samþykki þessi drög, sem er ekki með öllu útilokað þótt ólíklegt sé. Annar er sá að þingið hafni tillögunum og þá þarf May mjög sennilega að víkja. Í framhaldinu af þeim kosti yrði svo að ákvarða næstu skref.

Þá væri annaðhvort að leitast eftir nýjum samningi við ESB sem þingið gæti sætt sig við eða að fara úr sambandinu án samnings um útgönguna. Er það mat Eiríks að allir Bretar telji óæskilegt að ganga samningslaust út.

Einnig kæmi til greina að farið væri aftur í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort Bretland eigi yfir höfuð að ganga úr ESB, komist þingið að niðurstöðu um að ganga aftur til slíkra kosninga. Skoðanakannanir sýna, segir Eiríkur, að niðurstaða þeirrar atkvæðagreiðslu yrði á þá leið að Bretland ætti að vera áfram í ESB.

Eiríkur leggur áherslu á að Bretland sé enn þá í Evrópusambandinu. Klukkan 11 þann 29. mars á næsta ári mun þjóðing hins vegar ganga úr sambandinu að öllu óbreyttu og þá er sama hvort verði kominn samningur eður ei. Og flestum þykir æskilegt að ná samningi áður en það gerist.

„Málið er að Bretar eru bara enn þá að rífast um þetta sín á milli,“ segir Eiríkur.

Deilan að mestu um Norður-Írland

Eiríkur útskýrir af hverju landamærin við Norður-Írland hafa skipt svona miklu máli í þessum umræðum: „Að hluta til er það vegna þess að þarna var náttúrulega styrjöld fyrir ekki svo löngu. Hluti af lausninni við þeim ófrið á sínum tíma voru mjúk landamæri á milli lýðveldisins Írlands og Norður-Írlands. Ef því er ógnað óttast fólk að átök á þessu svæði gætu tekið sig upp á ný.“

Óhugsandi sé fyrir marga Íra, jafnt sem Norður-Íra, að tekin verði upp tollgæsla á landamærunum, enda er frjálst flæði þarna á milli þáttur í lífi margra. Gangi Norður-Írland  ásamt Bretlandi úr ESB þá þurfi að huga vel að því hvaða breytingar verði þarna á. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert