May heldur drögunum til streitu

Theresa May á blaðamannafundi.
Theresa May á blaðamannafundi. AFP

„Að vera leiðtogi er að taka réttu ákvarðanirnar, ekki þær léttu,“ segir Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, aðspurð hvort hún sjái fram á að vera áfram leiðtogi þjóðarinnar. Hún er myrk í máli um framtíð sína sem forsætisráðherra.

Hún heldur samningsdrögum þeim sem ríkisstjórn hennar samþykkti til streitu. Hún flutti ávarp fyrir fjölmiðla nú á fimmta tímanum.

„Þetta kaus fólkið og við verðum að fylkja liði á bak við þessi drög, sem eru þau bestu sem okkur bjóðast,“ sagði May.

Bein útsending BBC

Spurð út í andstöðu annarra íhaldsþingmanna við hana gaf hún í skyn að aðrir þingmenn þyrftu bara að vinna sína vinnu, sem væri að kjósa um Brexit. Hún ætlaði að vinna sína vinnu, sem er að skila sem bestri niðurstöðu fyrir bresku þjóðina.

Yfirlýsingar Theresu May var beðið með eftirvæntingu í fjölmiðlasalnum við Downing-stræti en efni hennar var viðbúið. 

Margir ósammála, þar á meðal íhaldsmenn

Þetta hefur verið erfiður dagur hjá Theresu May, forsætisráðherra Bretlands. Hún hefur setið fyrir svörum síðan í morgun á þinginu. Hún er að verja samningsdrögin um útgöngu Breta, sem hún lagði fram í morgun.

Samningurinn tryggir samkvæmt henni skipulagða og farsæla útgöngu. Hún hefur varið deginum í þinginu í dag við að halda því til streitu, að þetta sé besti samningur sem kostur er á.

Drögin voru samþykkt af ríkisstjórn May í gær en langt í frá með einróma niðurstöðu. Drögin voru svo lögð fyrir þingið í dag og hafa verið til umræðu.

Margir eru ósáttir og alls ekki síst íhaldsmenn, sem þó styðja Brexit. Á meðal þeirra er Jacob Rees-Mogg. Hann safnar liði og leggur fram vantrauststillögu. Hann sagði samninginn óviðunandi: „Samningsdrögin eru ekki í samræmi við vilja þjóðarinnar. Það er ómögulegt að samþykkja þessi kjör, það er ómögulegt að samþykkja að sundra Bretlandi.“

David Lammy, þingmaður Verkamannaflokksins, segir stöðuna sýna að Bretlandi mun ekki takast að fara úr ESB. Lammy við BBC: „May hefur gert sitt besta. Hún bara getur ekki komið í kring samningi. Það er bara ekki hægt. Það hefur sýnt sig.“

mbl.is