Sleppti fundum til að fá sér kríu

Rodrigo Duterte, þreytulegur í Singapúr í dag.
Rodrigo Duterte, þreytulegur í Singapúr í dag. AFP

Rodrigo Duterte, for­seti Fil­ipps­eyja, missti af nokkrum fundum á leiðtogafundi ríkja í suðurhluta Asíu vegna þess að hann var að leggja sig (e. taking power naps)

Talsmaður forsetans sagði að hann hefði misst af fjórum fyrirframákveðnum viðburðum á miðvikudag vegna þess að hann þurfti að „vinna upp tapaðan svefn“.

„Hvað er að því að ég leggi mig?“ spurði hinn 73 ára gamli Duterte þegar hann var spurður um svefninn.

Forsetinn hefur áður misst af viðburðum á alþjóðlegum fundum og á Filippseyjum en heilsa hans hefur verið mikið til umræðu undanfarið ár.

Salvador Panelo, talsmaður forsetans, sagði að hann hefði „unnið fram eftir og ekki náð þriggja tíma svefni“. Fjarvera forsetans sneri ekki að heilsu hans.

Duterte sagði að blundarnir nægðu ekki til fulls en þeir gæfu honum ákveðinn kraft fyrir næstu daga. Hann hefur áður sagst vera tilbúinn að stíga til hliðar sem forseti en hann hefði ekki enn fundið nógu góðan eftirmann.

Duterte var ekki sá eini sem þurfti að leggja sig á fundunum en blaðamaður Washington Post náði mynd af Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, þar sem hann lokaði augunum áður en hann fundaði með varaforseta Bandaríkjanna.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert