Tvöfaldur fjölskylduharmleikur í Ohio

Wagner-fjölskyldan er ákærð fyrir að myrða átta manns úr Rhoden-fjölskyldunni …
Wagner-fjölskyldan er ákærð fyrir að myrða átta manns úr Rhoden-fjölskyldunni í apríl 2016. Ljósmynd/Twitter

Lögreglan í Ohio hefur handtekið fjögurra manna fjölskyldu sem er grunuð um að hafa myrt átta manns úr sömu fjölskyldu á heimili þeirra, kannabis-búgarði í Pike-sýslu, árið 2016.

Hjónin George Wagner III, eða Billy, og Angela Wagner og synir þeirra George, 27 ára, og Edward, 26 ára, voru handteknir á þriðjudag. Fjölskyldan flutti til Alaska eftir að morðin voru framin en voru nýlega komin aftur til Ohio.

Forræðismál en ekki eiturlyfjauppgjör

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að morðið á Rhoden-fjölskyldunni var skipulagt í þaula og tengist forræðismáli, en Edward átti dóttur með einu fórnarlambanna. Meðan á rannsókninni stóð lagði lögreglan hald á yfir 100 kannabisplöntur og grunaði lögregluna í fyrstu að morðin tengdust eiturlyfjauppgjöri, en svo reyndist ekki vera. 

Morðin voru framin á búgarði Rhoden-fjölskyldunnar 22. apríl 2016 í fjórum mismunandi húsum. Fórnarlömbin voru á aldrinum 16-44 ára og fundust þau öll í rúmum sínum og svo virðist sem þau hafi öll verið sofandi þegar morðingjarnir létu til skarar skríða.

Þrjú börn, fjögurra daga gamalt, sex mánaða og þriggja ára, voru einnig á búgarðinum en var lífum þeirra þyrmt.

Hanna Rhoden, barnsmóðir Edwards, var meðal hinna myrtu en dóttir þeirra, Sophia, sem er fimm ára, var ekki á búgarðinum þetta örlagaríka kvöld. Hún er nú í umsjá barnaverndaryfirvalda.

Morðin voru framin á búgarði Rhoden-fjölskyldunnar 22. apríl 2016 í …
Morðin voru framin á búgarði Rhoden-fjölskyldunnar 22. apríl 2016 í fjórum mismunandi húsum. Fórnarlömbin voru á aldrinum 16-44 ára. Ljósmynd/Twitter

Nýkjörinn ríkisstjóri ákærir í málinu

Rannsókn málsins er sú umfangsmesta sem embætti ríkissaksóknara í Ohio hefur tekið að sér og jafnframt það undarlegasta, að sögn Mike DeWine ríkissaksóknara, sem var kjörinn ríkisstjóri Ohio í þingkosningunum í síðustu viku.

Hann segir jafnframt að Wagner-fjölskyldan hafi nýtt sér tengslin við Rhoden-fjölskylduna við skipulagningu á morðunum. „Þau vissu hvað þau voru að gera. Þetta var þaulskipulagt,“ sagði DeWine á blaðamannafundi í fyrradag.

Á meðan rannsókn málsins stóð yfir sagði Angela Wagner í samtali við fjölmiðla að hún hefði litið á Hönnu Rhoden eins og dóttur síns og sagði að morðingjarnir væru ekkert nema skrímsli.

„Varlega, en ekki nógu varlega“

„Þau gerðu þetta fljótt, óvinsamlega, af yfirvegun og varlega, en ekki nógu varlega,“ segir lögreglustjórinn Charles Reader, sem brast nánast í grát á blaðamannafundinum.

Wagner-fjölskyldan skildi eftir sig slóð sem lögreglunni tókst að rekja, meðal annars í gegnum farsímagögn og upptökur úr öryggismyndavélum. „Auk alls sem þau lugu að okkur,“ bætti Reader við.

Ekki liggur fyrir hvort fjölskyldan hafi ráðið sér lögfræðing en á þeim tveimur árum sem rannsókn málsins hefur staðið yfir hafa þau ítrekað neitað að hafa framið morðin.

Ákæran sem hefur verið birt Wagner-hjónunum og sonum þeirra er í yfir 80 liðum og eiga þau yfir höfði sér dauðarefsingu verði þau fundin sek. Þá hafa mæður hjónanna, Rita Newcomb og Fredericka Wagner, verið ákærðar fyrir að hindra framgang réttvísinnar og fyrir að bera ljúgvitni. Þær eru hins vegar ekki grunaðar um að hafa átt beinan þátt í morðunum.

Mæður hjónanna eru ákærðar fyrir að hindra framgang réttvísinnar og …
Mæður hjónanna eru ákærðar fyrir að hindra framgang réttvísinnar og fyrir að bera ljúgvitni. Ljósmynd/Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert