Atkvæði handtalin í Flórída

Alls voru greiddar 8,2 milljónir atkvæða. Þau verða nú endurtalin …
Alls voru greiddar 8,2 milljónir atkvæða. Þau verða nú endurtalin í höndunum. AFP

Yfirvöld í Flórída í Bandaríkjunum hafa fyrirskipað að öll atkvæðin sem voru greidd í kosningunum til öldungadeildarinnar í byrjun mánaðarins verði handtalin. Afar mjótt er á mununum milli frambjóðenda repúblikana og demókrata, en sá fyrrnefndi er með örlítið forskot á þann síðarnefnda sem á sæti í efri deild þingsins.

Kosningarnar fóru fram 6. nóvember en enn liggur ekki fyrir endanleg niðurstaða um hvort Bill Nelson, frambjóðandi demókrata og núverandi öldungadeildarþingmaður ríkisins, eða Rick Scott, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, hafi hlotið endanlegt brautargengi.

Rick Scott.
Rick Scott. AFP

Atkvæði voru endurtalin í vélum en tæknileg vandræði komu upp í að minnsta kosti einni fjölmennri sýslu. Niðurstaðan sýnir að Scott hafi hlotið um 12.600 fleiri atkvæði en Nelson af alls um 8,2 milljónum greiddra atkvæða. Munurinn er því aðeins 0,15 prósentustig.

Þar sem munurinn er minni en 0,25 prósentustig þarf samkvæmt gildandi lögum og reglum að handtelja öll atkvæðin. Niðurstaða þarf að liggja fyrir á sunnudaginn. 

Bill Nelson.
Bill Nelson. AFP

Ekki var farið fram á slíka endurtalningu í baráttunni um ríkisstjórastólinn. Þar stóð Ron DeSantis, frambjóðandi repúblikana, uppi sem sigurvegari. Munurinn á milli hans og demókratans Andrew Gillum var 0,41 prósentustig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert