Gove ætlar ekki að segja af sér

Michael Gove yfirgefur Downing-stræti 10 á miðvikudag.
Michael Gove yfirgefur Downing-stræti 10 á miðvikudag. AFP

Michael Gove, ráðherra umhverfis-, byggða- og matvælamála í Bretlandi, mun ekki segja af sér embætti eftir að drög að samningi voru samþykkt af bresku ríkisstjórninni um úrsögn Breta úr ESB.

Vangaveltur hafa verið uppi um framtíð hans í embætti. Þegar hafa nokkrir ráðherra í bresku ríkisstjórninni tilkynnt um afsögn sína.

Samkvæmt heimildarmanni ætlar Gove ekki að hætta vegna þess að hann vill starfa með samstarfsfólki sínu til að „tryggja bestu niðurstöðuna fyrir landið“.

Gove er sagður hafa hafnað tilboði um að hann verði ráðherra Brexit-mála eftir að tilkynnt var um afsögn Dominic Raab.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að Brexit-samkomulagið sé „sannarlega besti samningurinn fyrir Bretland“.

Að sögn BBC vildi Gove ekki taka við starfi ráðherra Brexit-mála nema hann fengi að breyta drögunum sem ríkisstjórnin hefur samþykkt en May og leiðtogar ESB vilja það ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert