Brak kafbátsins fundið

AFP

Brak argentínska kafbátsins San Jua fannst í Atlantshafinu í gær ári eftir að kafbáturinn hvarf með 44 manna áhöfn.

Í tilkynningu frá argentínska hernum á Twitter kemur fram að brakið hafi fundist á 800 metra dýpi. 

Það var áhöfn björgunarskipsins Seabed Constructor, sem er í eigu bandaríska björgunarfyrirtækisins Ocean Infinity, sem fann brakið. Skipið hefur verið við leit á þessum slóðum síðan í september.

Fjarskiptasamband hersins við áhöfn kafbátsins rofnaði 15. nóvember í fyrra en þá var hann í um 450 km fjarlægð frá strönd Argentínu. Kafbáturinn var á leið til hafnar frá Ushuaia, sem er syðsti oddi Argentínu.

Faðir eins sjómannsins segist enn vonast til þess að þeir séu á lífi þrátt fyrir að forseti landsins hafi lýst því yfir í gær að enginn þeirra hafi komist af. Ættingjar áhafnarinnar segja að þeir hafi verið upplýstir um að lík barna þeirra og ættmenna séu um borð í kafbátnum.

Herinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir það hvernig staðið var að leitinni allt frá því tilkynnt var um hvarf kafbátsins 16. nóvember í fyrra. Það var ekki fyrr en nokkrum dögum síðar að stjórn hersins tilkynnti um að áhöfnin hafi látið vita af vandræðum með rafmagn San Juan í síðustu fjarskiptum þeirra við herinn 15. nóvember. Tæpum tíu dögum síðar staðfesti herinn loks að sprenging hafi orðið um borð sem sérfræðingar rekja til rafmagns. Nokkrir háttsettir yfirmenn í hernum voru reknir í kjölfarið, þar á meðal Marcelo Srur aðmíráll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert