CIA segir krónprinsinn hafa fyrirskipað morðið

Salman krónrpins Sádi-Arabíu.
Salman krónrpins Sádi-Arabíu. AFP

Bandaríska leyniþjónustan, CIA, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Mohammend bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi fyrirskipað morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi.

Þetta kemur fram í bandarísku dagblöðunum Washington Post og Wall Street Journal.

Haft er eftir embættismönnum sem tengjast rannsókninni, að mat CIA byggi ekki á hörðum sönnunargögnum sem bendli krónprinsinn við morðið með beinum hætti, heldur byggi þetta á skilningi manna á því hvernig hlutirnir gangi fyrir sig í Sádi-Arabíu. Því er haldið fram, að svona lagað gæti ekki gerst án aðkomu krónprinsins. 

Stjórnvöld í Sádi-Arabíu hafa hins vegar vísað því alfarið á bug Salman krónprins hafi haft nokkra vitneskju um málið fyrirfram. 

Ríkissaksóknari landsins greindi frá því á fimmtudaginn, að það væri ekkert hæft í því að æðstu ráðamenn þjóðarinnar hefðu gefið fyrirmæli um morðið. Þá sagði hann að hann myndi sækjast eftir dauðarefsingu yfir fimmmenningunum sem eru í haldi grunaðir um ódæðið.

Fram kemur í frétt WSJ, að talsmenn sádiarabíska sendiráðsins í Washington í Bandaríkjunum hafi ekki svarað fyrirspurn blaðsins sem hafi óskað eftir viðbrögðum. WSJ greinir frá því að bandaríska dagblaðið Washington Post hafi fyrst greint frá mati CIA í gær. 

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið sem New York Times hefur tekið saman um hvernig menn telja að staðið hafi verið að morðinu. 

mbl.is