Frestur kostar 10 milljarða punda

Síðastliðin vika hefur verið erfið fyrir May.
Síðastliðin vika hefur verið erfið fyrir May. AFP

Dragi Bretland það lengi að semja um Brexit samning Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, þarf breska ríkið að greiða Evrópusambandinu 10 milljörðum punda meira en áður var áætlað, eða sem nemur rúmum 15.700 milljörðum íslenskra króna.  Þetta kemur fram í frétt breska dagblaðsins Guardian um málið.

Síðastliðin vika hefur verið erfið fyrir May en ýmsir hafa opinberlega krafist þess að Brexit samningnum verði breytt, þar á meðal umhverfisráðherra Bretlands, Michael Gove Brussel, og þingforsetinn Andrea Leadsom, sem hefur verið fylgjandi Brexit hingað til. Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa aftur á móti þvertekið fyrir að hægt sé að breyta samningnum og May hefur tekið í sama streng.

„Það er enginn annar kostur fyrir hendi. Við getum ekki breytt samningnum við Evrópusambandið,“ sagði May.

Dominic Raab, fyrrverandi Brexit-ráðherra, sem lét af störfum síðastliðinn þriðjudag vegna samningsins, sagði að Bretland ætti ekki að leyfa Evrópusambandinu að valta yfir sig og að Bretar þyrftu að vera tilbúnir til að ganga frá samningaborðinu ef þess gerist þörf. Raab viðurkenndi þó að hinn umtalaði Brexit samningur væri sá eini sem gæti gengið upp. 

Samningsfrestur að minnsta kosti árslangur

Í síðasta mánuði tjáði May leiðtogum í Evrópusambandinu að hún myndi hugsanlega biðja um nokkurra mánaða frest til að samþykkja samninginn. Í gærkvöldi gerði ESB henni hins vegar grein fyrir því að vilji Bretar fá lengri samningsfrest þurfi sá frestur að vera alla vega  árslangur.

Slík framlenging á samningsfrestinum myndi kosta breska ríkið um 10 milljarða punda, eða sem nemur 157.000 milljörðum íslenskra króna, sem bætast þá við þá 39 milljarða, 615.100 milljarða íslenskra króna, sem Bretland hefur nú þegar samþykkt að greiða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert