Trump: Of snemmt að segja hver myrti Khashoggi

Donald Trump Bandarikjaforseti segist eiga von á ítarlegri skýrslu stjórnarinnar …
Donald Trump Bandarikjaforseti segist eiga von á ítarlegri skýrslu stjórnarinnar um morðið á Khashoggi á þriðjudag. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir of snemmt að segja til um hver myrti sádi-arabíska blaðamanninn Jamal Khashoggi. Bandaríska leyniþjónustan, CIA, greindi frá því í gær að hún hefði komist að þeirri niðurstöðu að Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu, hafi fyrirskipað morðið Khashoggi.  

Trump, sem nú er á ferð um Kaliforníuríki þar sem hann kynnir sér umfang gróðureldanna sem þar geisa, segist eiga von á ítarlegri skýrslu um málið á þriðjudag.  Muni sú skýrsla útskýra hver bandarísk stjórnvöld telji að standi að morðinu á Khashoggi og hver heildaráhrif af morði hans séu. Reuters fréttaveitan, sem greinir frá, segir óljóst hver semji skýrsluna.

Sagði Trump morðið á Khashoggi „aldrei hafa átt að eiga sér stað“ og að sú niðurstaða CIA að krónprinsinn bæri ábyrgð á morðinu væri „möguleg“.

Leita enn staðreynda í málinu

Lét Trump þessi orð falla eftir að bandaríska utanríkisráðuneytið greindi frá því, í kjölfar þess að bandarískir fjölmiðlar fjölluðu um skýrslu CIA, að stjórnvöld væru enn að álykta um ábyrgð í málinu.

„Nýlegar fréttir af að bandarísk stjórnvöld hafi komist að lokaniðurstöðu í málinu eru ósannar,“ sagði í yfirlýsingu frá Heather Nauert talsmanni ráðuneytisins. Enn sé mörgum spurningum ósvarað varðandi morðið á Khashoggi.

Sagði Nauert utanríkisráðuneytið halda áfram að leita staðreynda í málinu og vinni að því með öðrum ríkjum að því að hinir seku verði látnir sæta ábyrgð. Á sama tíma sé viðhaldið mikilvægu sambandi Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu.

Sarah Sanders, upplýsingafulltrúi Hvíta hússins, segir forsetann hafa rætt niðurstöðu CIA í málinu við forstjóra leyniþjónustunnar, Ginu Haspel, og utanríkisráðherrann, Mike Pompeo, á leið sinni til Kaliforníu.

Vilja að stjórnvöld refsi Sádi-Arabíu

Reuters segir CIA hafa greint öðrum í stjórn Trumps, sem og þinginu frá niðurstöðum sínum í málinu og að það muni gera forsetanum erfiðara um vik með að viðhalda núverandi sambandi við Sádi-Arabíu. Heimildamaður sem þekkir vel til rannsóknarinnar, segir hana byggja að miklu leyti á líkum sem tengist stöðu prinsins sem raunverulegur stjórnandi Sádi-Arabíu, þetta sé engu að síður skýrasta niðurstaða sem Bandaríkin hafi til þessa komist að varðandi morðið á Khashoggi.

Þingmenn vilja koma löggjöf í gegn þess efnis að Sádi-Arabíu verði refsað fyrir morðið og hvöttu þingmenn bæði Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins Trump í gær til að sýna krónprinsinum hörku.

 „Allt bendir til þess að krónprins Sádi-Arabíu, Mbs, hafi fyrirskipað morðið á blaðamanni Washington Post Jamal Khashoggi. Stjórn Trump verður að koma með trúverðugan úrskurð um ábyrgð áður en MbS tekur af lífi mennina sem virðast hafa fylgt skipunum hans,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn og formaður utanríkisnefndar þingsins Bob Corker á Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert