Bannað að koma inn á Schengen-svæðið

Utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas.
Utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas. AFP

Átján Sádi-Aröbum hefur verið meinað um að koma inn á Schengen-landamærasvæðið í Evrópu vegna tengla þeirra við morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi í Instanbul í síðasta mánuði að sögn utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas.

Maas segir að um sameiginlega ákvörðun ríkjanna sé að ræða en Þýskaland sé í nánu samstarfi við Frakka og Breta varðandi 18 ríkisborgara Sádi-Arabíu og komu þeirra til landanna. Alls eru tuttugu og sex ríki fullir þátttakendur í Schengen–samstarfinu en þau eru öll EFTA-ríkin og aðildarríki ESB að undanskildu Bretlandi, Búlgaríu, Írlandi, Króatíu, Kýpur og Rúmeníu.

Schengen-samstarfið hófst árið 1995. Markmið samstarfsins er tvíþætt: Annars vegar að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna með afnámi vegabréfaskoðana. Hins vegar að styrkja baráttuna gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi með auknu eftirliti á ytri landamærum þátttökuríkjanna.

Þýsk yfirvöld hvöttu önnur ESB ríki til þess í síðasta mánuði að hætta að selja vopn til Sádi-Arabíu. Indverjar og Frakkar eru helstu vopnasalar Sádi-Arabíu og tók forseti Frakklands, Emmanuel Macron, fálega í beiðni þýskra yfirvalda.

Saksóknari í Sádi-Arabíu fór nýverið  fram á dauðarefsingu yfir fimm sádiarabískum embættismönnum sem sakaðir eru um að hafa myrt blaðamanninn. Þeir eru sakaðir um að hafa byrlað honum eitur og aflimað. Saksóknarinn segir að krónprins Sádi-Arabíu tengist ekki ódæðisverkinu. Það er hins vegar útbreidd skoðun í Tyrklandi og annars staðar á Vesturlöndum að hann hafi fyrirskipað morðið.

Hingað til hafa nær allar upplýsingar um morðið verið byggðar á upplýsingum tyrkneskra stjórnvalda. Sádi-Arabar hafa orðið margsaga um atburðarásina. Nú hafa þeir hins vegar staðfest frásögn Tyrkja og bætt við að líkamsleifar Khashoggis hafi verið afhentar starfsmanni leyniþjónustunnar fyrir utan ræðismannsskrifstofuna. Alls hefur 21 verið handtekinn í tengslum við rannsókn málsins og 11 verið ákærðir fyrir aðild að morðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert