Bloomberg útskýrir gjafmildina

Michael Bloomberg.
Michael Bloomberg. AFP

Fyrrverandi borgarstjóri New York, Michael Bloomberg, greindi frá því í gær að hann væri að veita Johns Hopkins-háskólanum fjárhagsstuðning upp á 1,8 milljarða Bandaríkjadala, sem svarar til 224 milljarða króna. Talið er að þetta sé stærsta gjöf sem háskóli hefur fengið.

Bloomberg segir ástæðuna vera þá að hann vildi auðvelda námsmönnum frá fátækari heimilum að sækja sér háskólamenntun. Í landi þar sem skólagjöld við fyrsta flokks háskóla nemi oft á tíðum meira en 50 þúsund dölum, 6,2 milljónum króna, á ári. Sem er of mikið fyrir flestar fjölskyldur, hvort sem þær teljast til millistéttar eða þeirra sem eru með enn lægri tekjur.

„Ég var heppinn. Faðir minn var bókhaldari sem aldrei þénaði yfir sex þúsund dali á ári. En ég gat stundað nám við Johns Hopkins-háskólann með námsláni frá Landvörnum (National Defense student loan) og með því að vinna á stúdentagarðinum,“ skrifar Bloomberg í grein á New York Times. 

„Prófskírteini mitt frá Hopkins opnaði dyr fyrir mig sem annars hefðu verið lokaðar og gerðu það að verkum að ég upplifði bandaríska drauminn.“  

Bloomberg, sem fyrst færði Hopkins peningagjöf árið eftir útskrift, þá 5 Bandaríkjadali, hefur síðan þá sett 1,5 milljarða Bandaríkjadala til rannsókna, kennslu og í annan fjárhagsstuðning við skólann. Peningagjöfin nú bætist við fyrri gjafir og verður nýtt til þess að styðja við námsmenn frá heimilum sem falla í flokk þeirra sem eru með lágar tekjur og millistétt.

Ég vil tryggja það að skólinn sem gaf mér tækifæri verði alltaf opinn fyrir því að veita öðrum sömu tækifæri, skrifar Bloomberg í grein sinni í NYT. 

Hér er hægt að lesa greinina í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert