Kílómetrar af gaddavír settir upp

Bandarískir hermenn vinna nú hörðum höndum að því að koma upp margra kílómetra löngum gaddavírslengjum við landamærin að Mexíkó í tilraun til þess að stöðva för þúsunda hælisleitenda frá löndum Mið-Ameríku.

Um hundrað hermenn hafa unnið að uppsetningu gaddavírsins í Texas-fylki, en alls eru um 5.800 hermenn staðsettir við landamæri Bandaríkjanna að Mexíkó.

Hermenn á svæðinu eru óvopnaðir samkvæmt umfjöllun fréttastofu AFP, enda hafa hermenn ekki leyfi til þess að sinna löggæslu og munu því líklega ekki hafa bein afskipti af innflytjendunum, en vopnuð lögregla er einnig á svæðinu.

Eins og áður segir leggja þúsundir hælisleitenda frá ríkjum Mið-Ameríku til Bandaríkjanna í leit að betra lífi. Stærstur hluti hópsins er kominn til Mexíkó, en ofsafengin viðbrögð Trump við komu fólksins voru talin uppátæki til þess að auka fylgi Repúblikanaflokksins fyrir þingkosningarnar sem fram fóru fyrr í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert