Minntist ekkert á dauða Khashoggi

Salman bin Abdulaziz, konungur Sádi-Arabíu.
Salman bin Abdulaziz, konungur Sádi-Arabíu. AFP

Salman, konungur Sádi-Arabíu jós dómskerfi landsins lofi í dag en þetta er í fyrsta sinn sem hann tjáir sig opinberlega síðan blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var myrtur í byrjun október.

Ríkissaksóknari landsins komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að krónprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman hefði ekki komið nálægt morðinu á Khashoggi í ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl. Bandaríska leyniþjónustan, CIA, er aftur á móti sögð hafa haldið því fram að krónprinsinn hafi fyrirskipað morðið.

Saksóknari fór fram á dauðarefsingu gagnvart fimm mönnum, tilkynnti að 11 hefðu verið ákærðir í málinu og að alls væri 21 í gæsluvarðhaldi vegna morðsins.

„Konungsveldið var stofnað á grundvelli íslamskra gilda sem snúast um réttlæti og jafnrétti og við erum stolt af starfi dómsvaldsins og ríkissaksóknara,“ sagði Salman í ávarpi sínu.

„Við munum tryggja að þetta land muni aldrei víkja frá því að framfylgja lögum guðs…og þjóna réttlætinu,“ sagði hinn 82 ára konungur, sem minntist þó aldrei beinum orðum á morðið á Khashoggi.

Jamal Khashoggi, í desember síðastliðnum.
Jamal Khashoggi, í desember síðastliðnum. AFP

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, ræddi morðið á Khashoggi við Antonio Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna í dag. Engin formleg beiðni hefur samt borist um að stofnunin rannsaki morðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert