Ráðherrarnir samþykkja drögin

Drögin að samningnum í höfuðstöðvum sambandsins á föstudag.
Drögin að samningnum í höfuðstöðvum sambandsins á föstudag. AFP

Ráðherrar aðildarríkja Evrópusambandsins hafa samþykkt drög að samningi um útgöngu Bretlands úr sambandinu. „Fyrsta og erfiða skrefinu er lokið,“ sagði evrópuráðherra Austurríkis, Gernot Blumel, en Austurríki fer um þessar mundir með embætti forseta sambandsins.

„Sársaukafull vika í evrópskum stjórnmálum er að hefjast,“ bætti hann við. „Við erum með skilnaðarpappírana á borðinu. Fjörutíu og fimm ár af erfiðu hjónabandi eru nú að taka enda.“

Á sama tíma eru í gangi yfirgripsmiklar viðræður um hvernig eigi að marka framtíðarstefnu sambandsins í samskiptum við Bretland eftir útgönguna, og einnig um hvort lengja eigi aðlögunartímann.

Samkvæmt áætlun mun Bretland ganga úr sambandinu 29. mars á næsta ári, en mun halda stöðu sinni innan sameiginlega efnahagssvæðisins í 21 mánuð til viðbótar til að gefa viðsemjendum tækifæri á að leitast eftir viðskiptasamningum.

Ef ekki tekst að ná samstöðu um samning fyrir lok þessa tímabils, getur Bretland beðið um framlengingu, en þó aðeins einu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert